Nýr stjórnmálaflokkur í Taílandi ætlar að fara að kröfu konungsins sem hefur neitað systur sinni, Ubolratana prinsessu um leyfi til að bjóða sig fram sem forsætisráðherraefni flokksins.
Ubolratana er eldri systir konungsins, tilkynnti í gær að hún hygðist bjóða sig fram í embætti forsætisráðherra, en kosið verður í landinu í vor. Hún býður sig fram fyrir Thai Raksa Chart-flokkinn, en hin umdeilda Shinawatra-fjölskylda ræður þar ríkjum líkt og í forvera hans.
Framboð Ubolratana kom nokkuð á óvart, en mótframbjóðandi hennar er Prayut Chan-O-Cha, helsti forvígismaður herforingjastjórnarinnar sem nú ræður ríkjum í Taílandi.
Konungur Taílands, Maha Vajiralongkorn, gagnrýndi systur sína fyrir framboðið og sagði það óviðeigandi af meðlimi konungsfjölskyldunnar að blanda sér í stjórnmál með þessum hætti.
Ákvörðun flokksins nú þykir auka líkur á að herforingjastjórnin muni halda völdum í landinu en herinn tók völdin í valdaráni árið 2014.
Thai Raksa Chart hefur aflýst kosningafundi sem boðað hafði verið til í kvöld og segir í tilkynningu frá flokknum að hann muni virða hefðir og siði konungsfjölskyldunnar.