Kínversk stjórnvöld hafa sent frá sér myndband af uighur-manninum Abdurehim Heyit í þeim tilgangi að sanna að hann sé enn á lífi eftir að tyrkneska utanríkisráðuneytið fullyrti að hann hefði látið lífið í fangabúðum kínverskra stjórnvalda í kjölfar þess að hafa mátt sæta pyndingum, að því er segir í umfjöllun BBC.
Heyit er einn merkasti tónlistamaður uighura-minnihlutahópsins í Kína og er sagður afplána átta ára fangelsisdóm vegna lags sem hann samdi sem ber titilinn Feður.
Í laginu koma fyrir orðin „píslarvottar stríðsins“ og eru þau sögð hafa sannfært kínversk stjórnvöld um áhyggjur sínar af því að hryðjuverkaógn stafaði af Heyit.
Uighurar er tyrkískur (e. turkic) þjóðarflokkur og hafa tyrknesk yfirvöld látið mál þeirra sig varða. Í dag sendu tyrknesk stjórnvöld frá sér tilkynningu þar sem sagt var frá því að Heyit hafi mátt þola pyndingar í „útrýmingarbúðum“ kínverskra stjórnvalda.
Sögðu Tyrkir það óásættanlegt að um milljón uighurar þurfi að þola tilhæfulausar handtökur, pyndingar og stjórnmálalegan heilaþvott.
„Opnun útrýmingarbúða á 21. öld og kerfisbundin samlögun sem kínversk stjórnvöld beita uighur-tyrkja er smánarblettur í sögu mannkynsins,“ sagði Hami Aksoy, talsmaður utanríkisráðuneytisins í Tyrklandi.
Stjórnvöld í Kína hafa mótmælt fullyrðingum tyrkneskra stjórnvalda og sagt þær ósannar. Jafnframt að það væri skýr stefna kínverskra yfirvalda að draga úr hryðjuverkaógninni án þess að gefa afslátt í því samhengi.
Fram kemur hjá BBC að Kína telur fangabúðirnar vera „verknámsmiðstöðvar“ og að „nemendurnir“ séu þakklátir fyrir að fá tækifæri til þess að „hugsa sinn gang“.