99 manns hið minnsta eru látnir, og tugir fá nú aðhlynningu á sjúkrahúsum á Norður-Indlandi, eftir að hafa neytt áfengis sem talið er að frostlegi hafi verið blandað saman við.
AFP-fréttaveitan hefur eftir yfirvöldum í Uttar Pradesh- og Uttrakhad-fylki að lögregla standi nú fyrir herferð gegn bruggurum, en fregnir af dauðsföllum tengdum neyslu á eitruðu áfengi hafa verið að berast yfirvöldum undanfarna daga og grunar lögreglu að um sé að ræða heimabrugg sem metanóli, sem m.a. er notað í frostlög, hefur verið blandað saman við.
Eru fórnarlömbin mörg hver sögð hafa kvartað undan svima og þau sögð hafa verið með kvölum er þau voru flutt á sjúkrahús eftir að neyta þessa ólöglega áfengis.
Ódýrt heimatilbúið áfengi er algengt í dreifðari byggðum Indlands og blanda bruggararnir oft metanóli út í heimabruggið til að auka styrk þess. Sé metanóls neytt í miklu magni getur það valdið blindu, lifrarskemmdum og jafnvel dauða.
Í einu héraði Uttar Pradesh létust 59 eftir neyslu slíks drykkjar, að því er AFP hefur eftir Shailendra Kumar Sharma, talsmanni lögreglunnar. Níu létust í nágrannahéraðinu og í Uttarakhand lést 31.
Tveir hafa verið handteknir vegna málsins og segir lögregla þá grunaða um að hafa útvegað áfengið. „Við erum að reyna að komast að því hver uppspretta þessa ólöglega áfengis er. Við munum brátt ná höfuðpaurnum bak við þennan harmleik,“ sagði Janmejay Khanduri, lögregluforingi í Uttarakhand.
Ár hvert má rekja hundruð dauðsfalla á Indlandi til áfengiseitrunar, sem í flestum tilfellum er til komin vegna neyslu á ódýrum drykkjum á borð við þessa.