Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vísar því á bug að stjórnvöld í Washington reyni að „hylma yfir“ morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi.
„Bandaríkin eru ekki að hylma yfir morð,“ sagði Pompeo á blaðamannafundi í Búdapest þegar hann var spurður út í gagnrýni þingmanns Demókrataflokksins.
Pompeo greindi frá þessu eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti virti að vettugi lokafrest sem þingið veitti honum til síðasta föstudags til að skila skýrslu um hver bæri ábyrgð á morðinu á Khashoggi.
Að sögn Pompeo eru bandarísk stjórnvöld að „vinna ötullega“ að rannsókn málsins.
„Forsetinn hefur verið mjög skýr í sinni afstöðu – hún gæti ekki verið skýrari – um leið og við fáum meiri upplýsingar, munum við halda áfram að gera þá einstaklinga sem um ræðir ábyrga gjörða sinna.“
Khashoggi, sem bjó í Bandaríkjunum, var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í október. Morðið vakti mikla reiði víða um heim og sverti að miklu leyti ímynd krónprinsins Mohammed bin Salman, sem hefur verið sakaður um að hafa fyrirskipað verknaðinn.
Ríkisstjórn Trump hefur hingað til sagt að engar haldbærar sannanir séu fyrir aðild prinsins að morðinu.