Neyðarástand vegna innrásar ísbjarna

Ísbjörn á ferð í Manitoba í Kanada. Mynd úr safni.
Ísbjörn á ferð í Manitoba í Kanada. Mynd úr safni. AFP

Foreldrar á hinni afskekktu Novaya Zemlya-eyju úti fyrir norðausturströnd Rússlands eru nú hræddir við að senda börn sín í skólann eftir „hópinnrás“ ísbjarna á byggð svæði.

Rússneska ríkisfréttastofan TASS segir tugi ísbjarna hafa leitað inn á þéttbýli á eyjunni frá því í lok síðasta árs. Um 50 tilkynningar um ísbirni hafa borist í stærsta bæ eyjunnar, Belushya Guba, þar sem um 2.500 manns búa.

CNN-sjónvarpsstöðin hefur eftir Alexander Minayev, einum ráðamanna bæjarins, að ísbirnir hafi ráðist á fólk og farið inn í hús. Þannig var neyðarástandi lýst yfir sl. laugardag þegar sást til allt að 10 ísbjarna í byggð á sama tíma.

„Fólk er óttaslegið. Það er hrætt við að yfirgefa heimili sín og það kemst rót á hefðbundna rútínu,“ segir Minaeyv. „Foreldrar eru hræddir við að senda börn sín í skólann og leikskólann.“

Tilfellum þar sem ísbirnir leita á mannaslóðir fjölgar stöðugt er ísinn hopar af heimaslóðum bjarnanna í kjölfar loftslagsbreytinga.

„Ísbirnir reiða sig á seli sem fæðu og selir reiða sig á hafísinn. Ísinn bráðnar með hnattrænni hlýnun, þannig að þetta er keðjuverkun sem hefur áhrif á möguleika bjarnanna til að lifa af,“ hefur CNN eftir Liz Greengrass, forstjóra Born Free-náttúrulífssamtakanna.

World Wildlife Fund-náttúrulífssamtökin hafa komið upp eftirlitsferðum í sumum byggðum á norðurheimskautssvæðinu til að koma í veg fyrir banvæn kynni bjarna og manna, auk þess sem kynntar hafa verið til sögunnar hljóðafælur, sterkari lýsing og bjarnheldar matvælageymslur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert