Dýrmætum dvergtrjám stolið

Dvergtré (bonsai) njóta vaxandi vinsælda um allan heim.
Dvergtré (bonsai) njóta vaxandi vinsælda um allan heim. AFP

Japanskt par er miður sín eftir að sjö dvergvaxin tré voru numin á brott úr garði þeirra. Trén eru sum hver mörg hundruð ára gömul og margra milljóna króna virði.

Í frétt The Guardian um málið segir að parið vonist enn til þess að sá sem stal trjánum sjái að sér og skili þeim.

Seiji Iimura er af fimmtu kynslóð dvergtrjáaræktenda í sinni fjölskyldu. Hann lét lögreglu vita af stuldinum nýverið en trén höfðu staðið við hús hans og eiginkonunnar Fuyumi, í borginni Saitama í nágrenni Tókýó.

Eitt tréð er um fjögur hundruð ára gamalt. Fyrir það hafa hjónin fengið fjölda viðurkenninga og er það metið á rúmlega sex milljónir króna. 

Svo virðist sem þjófarnir hafi haft sérþekkingu á trjám sem þessum enda stálu þeir verðmætustu trjánum. Í garði hjónanna má finna þúsundir trjáa og er hann opinn almenningi.

Fuyumi segir að trén séu eins og börn þeirra hjóna og að hún sé mjög sorgmædd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert