Flytja flóttafólk að nýju til Jólaeyjar

AFP

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, segir að flóttamannabúðir á Jólaeyju verði opnaðar að nýju en hart hefur verið deilt um málið á ástralska þinginu.

Í gær var frumvarp sem stjórnarandstöðuþingmaður lagði fram samþykkt en það felur í sér að auðveldara verði að veita veikum flóttamönnum læknishjálp í landinu en um er að ræða flóttamenn sem eru í haldi á eyjum eins og Papúa Nýju-Gíneu og Nauru. 

Morrison segir að lögin muni veikja landamærastefnu landsins og ýta undir smygl á fólki. Andstæðingar hans á þingi saka hann aftur á móti um hræðsluáróður.

Frá árinu 2013 hafa áströlsk yfirvöld sent hælisleitendur sem þangað koma með bátum í búðir á Manus-eyju (Papúa Nýju-Gíneu) og Nauru. Áður voru allir sendir í varðhald á Jólaeyju sem er eyja undir stjórn Ástrala á Indlandshafi. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa gagnrýnt varðhaldsstefnu ástralskra yfirvalda og segja meðferð þeirra á flóttafólki ómannúðlega. En stjórnvöld í Ástralíu segja þetta gert til þess að koma í veg fyrir mansal og til að forða fólki frá því að drukkna.

Í frétt BBC er fjallað um viðbrögð áströlsku þjóðarinnar sem fylltist hryllingi þegar skýrslur voru birtar sem sýndu skelfilegt andlegt ástand fólks sem var haldið á Nauru, þar á meðal barna, og ítrekaðar sjálfsvígstilraunir.

Þetta varð til þess að stjórnarandstöðuflokkarnir (Verkamannaflokkurinn og Græningjar) sameinuðust með stuðningi fleiri þingmanna um að styðja frumvarp sem veitir læknum heimild til þess að mæla með flutningi flóttafólks til Ástralíu þar sem það fær læknishjálp.

Morrison barðist hatramlega gegn frumvarpinu en varð undir þar sem það var samþykkt á þingi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert