Guaido: Hjálpargögnin komi með sjálfboðaliðum

Juan Guaido fullvissar stuðningsmenn sína hér á útifundi um að …
Juan Guaido fullvissar stuðningsmenn sína hér á útifundi um að hjálpargögn muni berast til landsins. AFP

Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela sem jafnframt hefur skipað sjálfan sig forseta landsins til bráðabirgða, hét því á fundi með stuðningsmönnum sínum í gær að sjá til þess að hjálpargögn komist til landsins. BBC greinir frá.

Flutningabílar með hjálpargögn komu að landamærum Venesúela í síðustu viku, en forsetinn Nicolás Maduro hafnaði því að þeim yrði hleypt inn í landið.

Guaidó segir nú að safnstöðvum fyrir hjálpargögn verði komið upp í nágrannaríkjunum við vegi til Venesúela, sem muni gera sjálfboðaliðum kleift að að koma hjálpargögnum til landsins.

Mikil efnahagskreppa hefur verið í Venesúela undanfarin ár og búa margir íbúar við matvælaskort, auk þess sem skortur hefur verið á lyfjum og lækningavörum.

„Um 300.000 Venesúelabúar munu deyja berist hjálpin ekki og heilsu tveggja milljóna íbúa verður stefnt í hættu,“ sagði Guaidó á fundi með stuðningsmönnum sínum og kvað aðstoðina berast 23. febrúar.

Bandaríkin og flest vestræn ríki, m.a. Ísland, hafa viðurkennt Guaidó sem forseta Venesúela til bráðabirgða.

Sendifulltrúar Guaidó funduðu með brasilískum embættismönnum í vikunni og var í kjölfarið greint frá áætlunum um að koma upp geymsluskýlum með hjálpargögnum í Roraima-fylki í Brasilíu, sem á landamæri að Venesúela.

BBC segir að svo virðist sem Guaidó reiði sig á aðstoð sjálfboðaliða og hvatti hann þá 250.000 sem þegar eru búnir að skrá sig á netinu að að nota helgina til að skipuleggja sig, „af því að við verðum að ferðast saman, líkt og flutningalest“, sagði hann.

Lyf eru hér afhent á sérstökum „lyfjadegi“ á Tienditas-brúnni sem …
Lyf eru hér afhent á sérstökum „lyfjadegi“ á Tienditas-brúnni sem skilur að Venesúela og Kólumbíu. AFP

Flutningabílar með hjálpargögn frá Bandaríkjunum voru í síðustu viku stöðvaðir af hersveitum Venesúela á Tienditas-brúnni á landamærum kólumbísku borgarinnar Cúcuta og venesúelsku borgarinnar Urena.

Maduro nýtur enn stuðnings meðal fjölda landsmanna, auk þess að hafa herinn á sínu bandi. Þá hafa stjórnvöld í Rússlandi og Kína lýst yfir stuðningi við stjórn hans.

Hann sætir þó engu að síður vaxandi þrýstingi heima fyrir um að boða til nýrra kosninga í landinu, vegna ásakana um útbreidda spillingu og mannréttindabrot undir núverandi stjórn.

Guaidó bauð í síðustu viku þeim hermönnum friðhelgi sem yfirgæfu Maduro og sagði við það tækifæri að það væri „glæpur gegn mannkyni“ að neita að hleypa hjálpargögnum inn í landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert