Donald Trump Bandaríkjaforseti segir það mikil mistök af hálfu Nicolas Maduro, forseta Venesúela, að hindra að neyðaraðstoð frá Bandaríkjunum komist í hendur almennings í Venesúela.
Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela sem jafnframt hefur skipað sjálfan sig forseta landsins til bráðabirgða, óskaði eftir hjálpargögnum. Bandaríkin, sem styðja Guidó, sendu flutningabíla með hjálpargögn sem komu að landamærum Venesúela í síðustu viku en Maduro hefur hafnað því að þeim verði hleypt inn í landið. Maduro segir aðstoð Bandaríkjanna í raun vera hluta af þeirri ætlun yfirvalda þar í landi að steypa honum af stóli.
Trump hefur ekki útilokað að senda herafla til Venesúela. „Við skoðum alla möguleika,“ segir forsetinn, sem fundaði með Ivan Duque, forseta Kólumbíu, í Hvíta húsinu í dag þar sem þeir ræddu stjórnmálaástandið í Venesúela.
Kólumbía hefur tekið við fjölda flóttamanna frá Venesúela. Duque sagði eftir fundinn með Trump í dag það að hindra aðgengi að hjálpargögnum vera glæp gegn mannkyninu.