Bresk kona, sem flúði að heiman og gekk til liðs við vígasamtökin Ríki íslams er hún var táningur, vill nú fá að snúa aftur heim. Konan Shamima Begum sem er 19 ára í dag býr nú í flóttamannabúðum í Sýrlandi og segir hún í viðtali við breska dagblaðið Times að hún sjá eftir því að hafa flúið af heimili foreldra sinna í London fyrir fjórum árum. Þá sagði hún börnin tvö sem hún hefði eignast síðan hafa dáið, en hún er nú ólétt af því þriðja.
Begum yfirgaf Ríki íslams er samtökin reyndu að halda yfirráðum sínum í Baghouz, í austurhluta Sýrlands nálægt landamærum Íraks.
„Ég var veikburða og þoldi illa þjáningarnar og þrengingarnar sem fólust í verunni á vígvellinum,“ sagði Begum.
„Ég var líka hrædd um að barnið sem ég ber nú undir belti myndi deyja líkt og hin börnin mín ef ég yrði þar áfram. Þess vegna flúði ég kalífadæmið og nú langar mig bara að komast aftur heim til Bretlands.“
Begum lýsir hversdagslífinu í Raqqa með hollenskum eignmanni sínum sem almennt venjulegu. Stundum hefðu þó verið „sprengingar og svoleiðis“.
„Þegar ég sá fyrsta afhöggna höfuðið í tunnu brá mér ekkert við það. Það var af stríðsmanni sem hafði verið tekinn á vígvellinum og var óvinur íslams. Mín eina hugsun var hvað hann hefði gert við múslimskar konur hefði hann fengið færi á,“ sagði hún.
Þá kvaðst Begum ekki vera sami 15 ára stelpukjáninn og strauk frá Bethnal Green fyrir fjórum árum í félagi við tvær skólasystur sínar til að ganga til liðs við Ríki íslams. Ári áður hafði önnur stúlka úr sama hverfi gert hið sama. „Ég sé ekki eftir að hafa komið hingað,“ bætti hún við.
Greint hefur verið frá því að ein stúlknanna, Kadiza Sultana, hafi verið drepin en Begum segir hinar tvær, Sharmeena Begum og Amira Abase, hafa verið áfram í Baghouz. „Þær voru sterkar og ég virði ákvörðun þeirra,“ sagði hún. „Þær hvöttu til þolinmæði og úthalds í kalífadæminu og völdu að vera áfram í Baghouz. Hafi þær lifað sprengingarnar og átökin af þá munu þær skammast sín fyrir að ég hafi farið. Þær tóku sína ákvörðun sem einhleypar konur af því að eiginmenn þeirra voru þegar látnir.“
Begum, sem nú er komin níu mánuði á leið, segir dóttur sína Sarayah hafa dáið eftir veikindi og dauði sonar hennar Jerah hafi tengst vannæringu. „Á endanum þá gat ég bara ekki meira,“ segir hún.