Náð var samkomulagi um gerð nýrra höfundarréttarlaga Evrópusambandsins í gær og er gert ráð fyrir að hin nýju lög muni þvinga efnisveitur og samskiptamiðla á netinu til þess að fjarlægja höfundarréttarvarið efni af síðum sínum í þeim tilgangi að verja höfundarréttarhafa og veltu þeirra, að því er segir í umfjöllun EUobserver.
Lögin munu meðal annars hafa áhrif á Twitter, Youtube og Google News þar sem þeim verður gert að fjarlægja efni notenda sem samræmist ekki nýju löggjöfinni. Sumir hafa lýst áhyggjum af því að þetta geti leitt til ritskoðunar.
Gera má ráð fyrir því að lögin hafi einnig áhrif á Íslandi þar sem fjölmargar breytingar hafa verið gerðar á höfundalögum á grundvelli tilskipana Evrópusambandsins í gegnum samningin um Evrópska efnahagssvæðið.
Julia Reda, þýskur þingmaður Pírata, varaði hins vegar við að algoriþmar sem settir verða í síur þegar halað er upp efni munu meðal annars ekki geta gert greinarmun á brotlegu efni og löglegum skopstælingum. Einnig sagði hún að þessi nýju lög muni leiða til ritskoðunar.
Töluverðar áhyggjur eru til staðar meðal tæknifyrirtækja þar sem þau óttast að lögin geti reynst skaðleg fyrir nýsköpun og stafrænt frelsi í Evrópu, segir Christian Borggren, varaforseti Samtaka tölvu- og samskiptafyrirtækja. Innan samtakanna eru stór fyrirtæki á borð við Google og Facebook.
Samkomulagið var afrakstur þriggja daga samningalotna milli þingmanna Evrópuþingsins, fulltrúa aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
„Evrópubúar munu loksins fá höfundarréttarlög sem samræmast stafrænum heimi og munu tryggja hag allra: réttindi notenda, sanngjarnt endurgjald fyrir þá sem framleiða efni, skýrar reglur fyrir hýsingaraðila,“ segir Andrus Ansip, framkvæmdastjóri stafrænna mála Evrópusambandsins, á Twitter.
Einnig telja sumir sem að samkomulaginu standa að löggjöfin mun tryggja að stórir stafrænir miðlar skili sanngjörnu endurgjaldi til þeirra sem framleiða efni.