Sá þriðji í Skripal-málinu nafngreindur

Mynd úr eftirlitsmyndavél af tveimur mönnum sem bresk yfirvöld gruna …
Mynd úr eftirlitsmyndavél af tveimur mönnum sem bresk yfirvöld gruna um að hafa eitrað fyrir Skripal-feðginunum. AFP

Kennsl hafa nú verið borin á þriðja manninn sem talinn er eiga aðild að tilræðinu við rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans.

Rannsóknarvefurinn Bellingcat hefur birt nafn mannsins, sem sagður er heita Denis Sergeyev og á að vera hátt settur í rússneska hernum. Á hann að hafa útskrifast úr einni akademíu rússneska hersins, sem útskrifað hefur fjölda leyniþjónustumanna.

Segir Bellingcat þetta vera hið rétta nafn mannsins sem hafi gefið sig út fyrir að heita Sergey Fedotov. Þegar hafa verið borin kennsl á tvo aðra leyniþjónustumenn rússneska hersins sem taldir eru eiga aðild að tilræðinu og var það raunar líka Bellingcat sem nefndi þá fyrst á nafn.

Denis Sergeyev sem Bellingcat segir þriðja manninn sem mögulega eigi …
Denis Sergeyev sem Bellingcat segir þriðja manninn sem mögulega eigi aðild að tilræðinu við Skripal-feðginin. Skjáskot/Bellingcat

Það var í byrjun mars í fyrra sem Skripal-feðginin fundust meðvitundarlaus á bekk við verslunarmiðstöð í Salisbury í Bretlandi. Síðar kom í ljós að þau höfðu orðið fyrir árás með taugaeitrinu Novichok. Þau lifðu bæði árásina af, en glas með leifum af eitrinu rataði síðar í hendur á bresku pari og kostaði það konuna lífið.

Var í Búlgaríu er kaupsýslumaður og sonur hans misstu meðvitund

Bellingcat segir Sergeyev hafa verið staddan í Búlgaríu árið 2015 þegar kaupsýslumaður nokkur missti meðvitund ásamt syni sínum og einum forstjóra fyrirtækja hans. Talið var að eitrað hefði verið fyrir þeim. Allir þrír lifðu af, en málið leystist aldrei. Breska lögreglan er hins vegar talin vera að rannsaka hvort tengsl séu milli málanna, að því er Guardian hefur eftir forsætisráðherra Búlgaríu.

Sergei Skripal.
Sergei Skripal. AFP

Guardian segir bresk yfirvöld ekki hafa borið kennsl á þriðja manninn og „óljóst sé“ hvert, ef nokkurt, hlutverk Sergeyevs hafi verið í tilræðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert