Fjölskylda Shamimu Begum, sem flúði er hún var 15 ára frá Bretlandi til Sýrlands til að ganga til liðs við vígasamtökin Ríki Íslams, biðlar nú til breskra stjórnvalda að hún fái að snúa aftur heim hið fyrsta.
Begum, sem er barnshafandi af sínu þriðja barni, býr nú í flóttamannabúðum í Sýrlandi eftir að hafa flúið frá vígasamtökunum. Bendir fjölskylda Begum á að ófætt barn hennar sé „algjörlega saklaust“ og eigi rétt á að vaxa úr grasi í „friði og öryggi“ í Bretlandi.
Sjálf sagði Begum í viðtali við Times að hún óttaðist að barnið yrði tekið frá sér, snéri hún aftur til Bretlands.Hún hefur þó jafnframt lýst yfir áhuga á að fá að koma aftur heim.
BBC hefur eftir dómsmálaráðherra Bretlands að hvert og eitt mál sé metið sérstaklega.
Begum flúði frá Bethnal Green í London til Sýrlands með tveimur skólasystrum sínum árið 2015. Það var svo í síðustu viku sem Times greindi frá því að hún væri í flóttamannabúðum í Sýrlandi, eftir að hafa flúið síðasta höfuðvígi Ríkis íslams í austurhluta Sýrlands.
Times birti í dag framhald á viðtali sínu við Begum sem er 19 ára og eignaðist tvö börn á tíma sínum í kalífadæminu, en þau létust bæði á undanförnum fjórum mánuðum. Þar spyr hún blaðamann: „Hvað heldurðu að verði um barnið mitt? Ég vil ekki að það verði tekið frá mér, eða að minnsta kost ef það gerist að það fari þá til fjölskyldu minnar.“
Þá kvaðst hún þegar hafa farið á sjúkrahús í flóttamannabúðunum vegna hríðarverkja sem hún fann fyrir eftir að hún kom í búðirnar. Það þýði að hún geti átt barnið hvenær sem er.
Begum sagðist gera sér fulla grein fyrir að hún geti ekki snúið aftur til Bretlands í rólegheitum og að hún kunni að verða ákærð fyrir hryðjuverk.
Fjölskylda Begum sendi frá sér yfirlýsingu á föstudag og sögðu þau hafa misst alla von um að sjá hana aftur. Hún hefði hins vegar hætt á fangelsun og dauða er hún flúði frá vígasamtökunum. Þau kváðust engu að síður hafa orðið fyrir áfalli við að heyra hversu litla iðrun hún sýndi vegna þeirrar ákvörðunar sinnar að ganga til liðs við Ríki íslams. Þau segja það þó vera „orð stúlku sem 15 ára gömul“ var tæld til liðs við vígasamtökin og sem hefur verið umkringd stuðningsmönnum þeirra.
Segjast þau enn fremur hafa áhyggjur af andlegri heilsu hennar eftir Sýrlandsdvölina, en Begum giftist einum hollenskum vígamanni Ríkis íslams og átti með honum börn.
„Núna stöndum við frammi fyrir þeim fréttum að Shamima hafi átt ung börn sem dóu – börn sem við fengum aldrei að að kynnast sem fjölskyldu okkar. Það eru erfiðustu fréttirnar,“ segir í yfirlýsingunni.
Heilsa og velferð ófædds barns hennar sé þeim efst í huga og þau vilji gera allt sem á sínu valdi sé til að vernda barnið, sem sé að öllu leyti saklaust af þessum atburðum. Þau taki því hins vegar fagnandi verði efnt til rannsóknar á aðgerðum Begum í Sýrlandi undir formerkjum bresks réttarkerfis.
BBC hefur eftir David Gauke, dómsmálaráðherra Bretlands, að öryggi landsins stafai ógn af því að hleypa fólki eins og Begum aftur til Bretlands. Hann útiloki þó ekki að það verði gert og segir hvert mál vera metið sérstaklega.
Áður hefur Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, sagt Begum kunna að eiga ákærur yfir höfði sér snúi hún aftur heim.