Áttu að vera „til reiðu“ fyrir presta

Páfagarður hefur vitað af kynferðisbrotum kaþólskra presta og biskupa gagnvart …
Páfagarður hefur vitað af kynferðisbrotum kaþólskra presta og biskupa gagnvart nunnum í áratugi. AFP

Kaþólskar nunnur í Afríku á tíunda áratug síðustu aldar áttu að vera „til reiðu“ fyrir presta sem þyrftu kynferðislega útrás. Á þeim tíma var HIV-faraldurinn að breiðast hratt út og þar sem nunnur höfðu líklegast ekki smitast af veirunni vildu prestar hafa „aðgang“ að þeim til kynferðismaka. Að öðrum kosti „þyrftu“ þeir að eiga mök við heimakonur sem byði hættunni á smiti heim.

Þetta er meðal þess sem fram kom í skýrslu nunnunnar Mauru O’Donoghue sem hún vann árið 1994 og kynnti m.a. fyrir kardínála kaþólsku kirkjunnar ári síðar. Nú, um aldarfjórðungi síðar, er loks verið að fletta ofan af kerfisbundnu kynferðislegu ofbeldi presta og biskupa gagnvart nunnum.

Frans páfi staðfesti slík tilvik við blaðamenn nýverið og sagði að einhverjum þjónum kirkjunnar hefði verið vikið frá störfum fyrir brot af þessu tagi. Nokkrum dögum fyrr hafði verið greint frá málinu í kvennatímariti Vatíkansins. Þar kom m.a. fram að dæmi væru um að nunnur hefðu orðið óléttar eftir presta og ýmist undirgengist þungunarrof eða eignast börnin.

Systir Maura O’Donoghu afhjúpaði kynferðisbrot gagnvart nunnum í skýrslu sem …
Systir Maura O’Donoghu afhjúpaði kynferðisbrot gagnvart nunnum í skýrslu sem hún lauk við árið 1994.

O’Donoghue vakti einnig athygli á því í skýrslu sinni að árið 1988 hafi leiðtogum kaþólskrar systrareglu í Malaví verið vikið frá störfum eftir að hafa kvartað undan því að 29 nunnur hefðu orðið óléttar eftir presta. Þá benti hún enn fremur á að prestur hefði farið með nunnu í fóstureyðingu og að í aðgerðinni hefði hún látist. Í skýrslunni greindi hún frá kynferðisbrotum gagnvart nunnum sem störfuðu í yfir tuttugu löndum: Botsvana, Búrúndí, Kólumbíu, Gana, Indlandi, Írlandi, Ítalíu, Kenía, Nígeríu, Úganda, Bandaríkjunum og Sambíu svo dæmi séu nefnd.

Stungið undir stól

Systir O’Donoghue byggði skýrslu sína á framburðum presta, lækna og annarra sem hún taldi trausta heimildarmenn. Hún hafði auk þess upplýsingar um að gögn lægju fyrir til sönnunar ofbeldinu í einhverjum tilvikum.

Skýrslan var unnin fyrir Páfagarð. Henni var hins vegar stungið ofan í skúffu á sínum tíma. Árið 2001 komst hún hins vegar í fréttir að frumkvæði kaþólsks fréttabréfs og hafði The Irish Times þá eftir talsmanni Páfagarðs að „vandamálið væri þekkt“ en hélt því fram að það væri „bundið við ákveðin landfræðileg svæði“. Er talið að þar hafi hann átt við Afríku.

O’Donoghue vann í 45 ár að mannúðarstörfum á vegum kaþólsku kirkjunnar víðs vegar um Afríku. Því er skiljanlegt að í skýrslu hennar hafi ákveðin áhersla verið á þá heimsálfu. En ljóst mátti vera af niðurstöðum hennar að ofbeldið gagnvart nunnunum var alls ekki staðbundið heldur var að eiga sér stað um allan heim enda kom O’Donoghue víða við á sínum starfsferli, alls í 83 löndum.

Nunna kyssir á hönd Frans páfa. Stéttaskipting og kynjamisrétti er …
Nunna kyssir á hönd Frans páfa. Stéttaskipting og kynjamisrétti er talið meðal skýringa á því að ofbeldi gagnvart nunnum hefur legið í þagnargildi lengi. AFP

En hvers vegna hefur umfjöllun um kynferðislegt ofbeldi gagnvart nunnum, sem þekkt hefur verið í áratugi, ekki verið áberandi í fjölmiðlum fyrr en nú?

Skýringarnar eru margvíslegar en ein þeirra er sú að aðeins fáum árum eftir að fjallað var um skýrslu systur O’Donoghue í fjölmiðlum í upphafi aldarinnar fóru að skjóta upp kollinum fjölmargar ásakanir um gróft kynferðisofbeldi gegn börnum innan kaþólsku kirkjunnar. Á næstu árum var heimsbyggðin heltekin af þeim óhugnaði og sífellt var flett ofan af fleiri barnaníðsmálum, sem voru hvert öðru óhugnanlegra. Bæði leiðtogar kirkjunnar og almenningur allur áttu fullt í fangi með að átta sig á umfanginu – og viðurkenna að sá viðbjóður hefði viðgengist áratugum saman.

Réttlætið tekur tíma

Talsmenn nunna sem beittar hafa verið kynferðislegu ofbeldi fagna því að páfi hafi loks sett málið á dagskrá kirkjunnar. Þeir gagnrýna hins vegar hversu langan tíma það hefur tekið og segja orð hans ekki vekja vonir um að það verði tekið föstum tökum, hratt og örugglega. Vísa þeir þar til þess páfa sem sagði: „Það hafa verið prestar og biskupar“ sem hafi orðið uppvísir að kynferðislegri misnotkun á nunnum og að „hún heldur áfram því það er ekki eins og hún hætti um leið og þú gerir þér grein fyrir henni“.

Rifjaði hann svo upp að fyrirrennari hans á páfastóli, Benedikt sextándi, hefði reynt að taka á einu máli af þessum toga er hann var enn kardínáli og Jóhannes Páll II. var páfi. Honum hafi ekki orðið ágengt. Sagði Frans páfi svo við blaðamennina að það dæmi ætti ekki að hræða, svona væri „ferlið“.

Þessi orð hans hafa verið túlkuð á þá leið að það taki tíma að ná réttlæti innan kaþólsku kirkjunnar því hann bætti svo við að um leið og Benedikt varð páfi hafi hann látið sækja gömlu málsskjölin og tekið málið upp að nýju.

Blaðamaður AP-fréttastofunnar hefur komist að því að kynferðisbrot gagnvart kaþólskum …
Blaðamaður AP-fréttastofunnar hefur komist að því að kynferðisbrot gagnvart kaþólskum nunnum hafa verið framin í að minnsta kosti fjórum heimsálfum. AFP

„Við höfum orðið fyrir vonbrigðum með að það hafi þurft fjölmiðla til að þrýsta á kirkjuna og fá páfa til að tjá sig,“ segir Zuzanna Flisowska, framkvæmdastjóri Voices of Faith, samtaka sem berjast fyrir aukinni forystu kvenna innan kirkjunnar, í samtali við New York Times.

Aðrir hafa bent á að kynferðisbrot gegn nunnum hafi verið þekkt í áratugi, um þau megi finna ítarleg sönnunargögn en að kirkjan hafi hylmt yfir þau. Þá segja þeir að enn séu fornaldarleg viðhorf ríkjandi innan kirkjunnar sem ýti undir þá trú manna að prestarnir séu fórnarlömbin, þeirra sé freistað. Viðtekin viðhorf margra séu auk þess þau að nunnur eigi að aðstoða og þjónusta presta, það sé þeirra köllun. Þannig sé stéttaskipting og kynjamisrétti hluti af rót vandans.

Óttuðust refsingar

Í umfjöllun fjölmiðla síðustu daga hafa verið nefnd dæmi um að nunnur og abbadísir klaustra hafi ekki þorað að segja frá ofbeldinu af ótta við að skrúfað yrði fyrir fjárstreymi til þeirra mannúðarverkefna sem þær sinna, oft á fátækum svæðum meðal margra þurfandi barna og kvenna. Þá hafi þær einnig óttast um orðspor sitt og sinnar reglu. Í raun séu þetta sömu rök og notuð voru til að hylma yfir barnaníðið á sínum tíma.

Ein ástæða til hefur verið nefnd sem skýring á því að um þetta ofbeldi hafi verið þagað svo lengi: Skírlífsheitið. Laurie Goodstein, blaðamaður New York Times, sagði í viðtali nýverið að skírlífið sem krafist er af þjónum kaþólsku kirkjunnar sé mörgum þeirra erfitt og að það verði m.a. til þess að þagað er um kynferðisleg ofbeldisverk.

Þannig nýttu prestar sem beitt hefðu nunnur eða börn ofbeldi sér það að aðrir prestar eða biskupar hefðu rofið skírlífsheitin með því að eiga í leynilegum kynferðislegum samböndum. „Því ef biskup lifir leyndarlífi veit kannski einhver prestur hans af því. Og kannski er presturinn sjálfur að lifa einhvers konar leyndarlífi og því segir hvorugur nokkuð. Þannig hlaðast leyndarmálin upp, leyndarmál á leyndarmál ofan.“ Og þó að sum þeirra séu grafalvarleg, grimmileg ofbeldisverk, þegi allir frekar en að hulunni sé almennt svipt af skírlífsbrotunum.

Indversk nunna kyssir á fót dúkku við jólaguðsþjónustu í Guwahati.
Indversk nunna kyssir á fót dúkku við jólaguðsþjónustu í Guwahati. AFP

Nicole Winfield, blaðamaður AP-fréttastofunnar, var sú sem spurði páfa út í ásakanir um kynferðisbrot presta gegn nunnum um borð í einkaþotu hans nýverið. Hún hafði þá rannsakað málið um hríð og komist að því að slík brot innan kaþólsku kirkjunnar hafa átt sér stað í að minnsta kosti fjórum heimsálfum.

Síðar í mánuðinum verður haldin tímamótaráðsefna í Vatíkaninu þar sem biskupar kaþólsku kirkjunnar munu koma saman og ræða kynferðisofbeldi gegn „viðkvæmum einstaklingum“. Er þetta í fyrsta sinn sem slík ráðstefna er haldin.

Loks er hlustað

Írska nunnan Maura O’Donohue, sem vann skýrsluna um kynferðisofbeldi gegn nunnum í 23 löndum á tíunda áratug síðustu aldar, sneri alfarið til starfa í heimalandinu árið 2003. Þar einbeitti hún sér síðustu æviárin að viðkvæmum hópum í samfélaginu, m.a. konum frá Austur-Evrópu sem seldar höfðu verið mansali. Þótt Páfagarður hafi ekki hlustað á hana á sínum tíma eru nafn hennar nú á margra vörum og skýrsla hennar talin gríðarlega mikilvæg heimild um níðingsverkin. Og nú eru loks sífellt fleiri farnir að hlusta.

Systir O’Donohue lést í maí árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert