Begum búin að fæða barnið

Shamima Begum er nú búin að eignast dreng í flóttamannabúðum …
Shamima Begum er nú búin að eignast dreng í flóttamannabúðum í Sýrlandi. AFP

Shamima Begum, sem flúði er hún var 15 ára frá Bretlandi til Sýrlands til að ganga til liðs við vígasamtökin Ríki íslams, hefur nú fætt barn í flóttamannabúðum í Sýrlandi. Breska dagblaðið Times ræddi við Begum fyrr í vikunni og lýsti hún þá yfir áhuga á að fá að snúa aftur til Bretlands. Hún var þá ólétt af sínu þriðja barni, en hin tvö börn hennar létust á undanförnum fjórum mánuðum.

BBC segir fjölskyldu Begum nú hafa greint frá því að barnið sé fætt. Í yfirlýsingu frá lögfræðingi fjölskyldunnar segir að Begum og barninu, sem er drengur, heilsist báðum vel.

Times fann Begum, sem er 19 ára í dag, í flóttamannabúðunum í Sýrlandi í síðustu viku en hún hafði þá flúið frá síðasta höfuðvígi Ríkis íslams í austurhluta Sýrlands.

„Það ættu margir að hafa samúð með mér,“ sagði Begum í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina. „Ég vissi ekki hvað ég var að fara út í þegar ég fór.“

Sér ekki eftir að hafa farið til Sýrlands

Hún kveðst á vissan hátt hafa gert mistök með því að fara til Sýrlands. „Ég sé þó ekki eftir því af því að þetta hefur breytt mér sem manneskju og gert mig sterkari og þrautseigari,“ sagði Begum.

„Ég átti alveg góðar stundir þar. Það er bara, að þetta varð svo erfiðara og erfiðara og þá gat ég þetta ekki lengur.“ 

Fjöl­skylda Beg­um hefur biðlað til breskra stjórn­valda að hún fái að snúa aft­ur heim hið fyrsta og vísar þar einkum til barnsins sem þá var ófætt. Barnið sé „al­gjör­lega sak­laust“ og eigi rétt á að vaxa úr grasi í „friði og ör­yggi“ í Bretlandi.

Sjálf sagði Beg­um í viðtali við Times að hún óttaðist að barnið yrði tekið frá sér, sneri hún aft­ur til Bret­lands. Ég vil ekki að það verði tekið frá mér, eða að minnsta kost ef það ger­ist að það fari þá til fjöl­skyldu minn­ar,“ sagði hún.

BBC hef­ur eft­ir Dav­id Gauke, dóms­málaráðherra Bret­lands, að ör­yggi lands­ins stafi ógn af því að hleypa fólki eins og Beg­um aft­ur til Bret­lands. Hann úti­loki þó ekki að það verði gert og seg­ir hvert mál metið sér­stak­lega.

Áður hef­ur Sajid Javid, inn­an­rík­is­ráðherra Bret­lands, sagt Beg­um kunna að eiga ákær­ur yfir höfði sér snúi hún aft­ur heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka