„Við vorum einfaldlega fávís“

Kona og barn í flóttamannabúðum í Sýrlandi. Mynd úr safni.
Kona og barn í flóttamannabúðum í Sýrlandi. Mynd úr safni. AFP

Bandarísk kona, sem hersveitir Kúrda tóku til fanga eftir að hún flúði eitt af síðustu höfuðvígjum vígasamtakanna Ríkis íslams í Sýrlandi, segist „iðrast þess verulega“ að hafa farið til Sýrlands til að ganga til liðs við vígasamtökin. Konan, Hoda Muthana, biðlar nú til yfirvalda að hún fái að snúa aftur til fjölskyldu sinnar í Alabama.

Guardian segir Muthana hafa vera einn af helstu áróðursmönnum Ríkis íslams á netinu og hún hafi m.a. hvatt til þess að blóði Bandaríkjamanna væri úthelt. Hún segist nú hafa gert „reginmistök“ þegar hún fór frá Bandaríkjunum fyrir fjórum árum og segist hafa verið heilaþvegin á netinu.

Guardian ræddi við Muthana, þar sem hún dvelur nú í al-Hawl-flóttamannabúðunum í norðurhluta Sýrlands. Á meðan leikur 18 mánaða sonur hennar sér við fætur hennar. Muthana kveðst hafa misskilið trú sína og að þeir vinir sem hún taldi á þeim tíma vera að fylgja kennisetningum íslams, hefðu í raun verið að styðja Ríki íslams.

„Við vorum einfaldlega fávís […] og vorum svo orðnir hermenn í heilögu stríði [e. jihadi] ef lýsa má því þannig,“ sagði Muthana. „Ég hélt að ég væri að gera hið rétta í nafni Guðs.“

Eini Bandaríkjamaðurinn í búðunum

Muthana er eini Bandaríkjamaðurinn í hópi um 1.500 erlendra kvenna og barna í búðunum þar sem 39.000 flóttamenn dvelja nú. Búðirnar eru í um tveggja klukkutíma fjarlægð frá þeim stað þar sem lokabaráttan til að hrekja Ríki íslams frá norðurhluta Sýrlands á sér stað.

Reynsla Muthana af lífinu með vígasamtökunum fylgir risi og falli kalífadæmisins yfir fimm ára tímabil. Hún flúði að heiman og flaug til Tyrklands í nóvember árið 2014, eftir nokkurra mánaða undirbúning. Þessum fyrirætlunum sínum hafði hún haldið vandlega leyndum fyrir fjölskyldu sinni.

Hún settist svo að í sýrlensku borginni Raqqa, sem var eitt af höfuðvígjum Ríkis íslams og giftist þar áströlskum vígamanni, Suhan Rahman. Hann átti eftir að verða fyrstur þriggja eiginmanna hennar.

„Úthellið blóði þeirra“

Rahman var drepinn í bænum Kobani og skömmu síðar skrifaði Muthana á Twitter: „Bandaríkjamenn vaknið þið! Bæði konur og menn. Það er margt sem þið þurfið að gera á meðan þið lifið undir stærsta óvini okkar. Það er búið að sofa nóg! Farið að aksturslúgum og úthellið blóði þeirra, eða leigið stóran bíl og keyrið yfir þá [...] drepið þá,“ skrifaði hún.

Um margra mánaða skeið árið 2015 var Twitter-síða hennar full af fordæmingum og hún kveðst hafa verið ofstækismanneskja áfram næsta árið. Nú segir hún aðra hafa tekið Twitter-reikning sinn yfir.

Skömmu síðar giftist Muthana öðrum eiginmanni sínum, vígamanni frá Túnis, og eignaðist soninn Adam með honum. Hann féll í Mósúl, en Muthana hörfaði ásamt tugum annarra kvenna dýpra inn á yfirráðasvæði vígasamtakanna. Þar giftist hún svo sýrlenskum vígamanni í fyrra.

Svaf í eyðimörkinni með öðrum útlögum

Muthana segir fjölskyldu sína í Alabama vera mjög íhaldssama og að þau hafi haft heftandi áhrif á hana. Þetta telur hún hafa átt sinn þátt í því að hún snerist til öfgatrúar. „Mann langar að fara út með vinum sínum, en ég mátti það ekki. Þá sneri ég mér að trúnni og gerði það of harkalega. Ég var sjálflærð og hélt að allt sem ég las væri rétt,“ segir Muthana.

„Þegar ég horfi núna til baka þá finnst mér ég hafa verið mjög hrokafull. Núna hef ég áhyggjur af framtíð sonar míns. Ég átti ekki marga vini eftir að lokum, af því að því meira sem ég talaði um kúgun Ríkis íslams því fleiri vini missti ég. Ég var eitt sinn heilaþvegin og vinir mínir eru það enn þá.“

Það var svo fyrir sex vikum sem Muthana flúði til þorpsins Susa, sem er skammt frá víglínunni í Baghuz þar sem barist er nú. Hún segist hafa sofið tvær nætur í eyðimörkinni með hópi annarra útlaga frá Ríki íslams. Síðan var hún tekin til fanga af hersveitum Kúrda sem fluttu hana til al-Hawl, þar sem hún er í félagsskap annarra eiginkvenna og ekkna vígamanna víða að úr heiminum.

Konunum er óheimilt að yfirgefa búðirnar og vopnaðir verðir fylgja þeim á fundi. Þær hafa þó aðgang að mat og einhverjum hjálpargögnum.

Gera okkur lífið leitt

Í al-Hawl-búðunum hefur óvild sem kraumaði undir yfirborðinu síðustu fjögur árin risið upp á yfirborðið á ný. Ný bandalög hafa myndast og óvinátta kviknað, en konurnar tilheyra þremur aðskildum hópum, rússneskum konum, túnisískum konum og svo öðrum vestrænum konum að sögn starfsmanna búðanna.

„Þær [rússnesku og túnísísku konurnar] gera okkur lífið leitt,“ segir Lisa Anderson, sænsk kona sem er þar í haldi. „Fari maður út úr tjaldinu án þess að vera í búrku eða segir eitthvað við stjórnendurna þá berja þær mann eða börnin manns. Svo hóta þær að brenna tjaldið manns.“

Eins árs dóttir Anderson dó í flóttamannabúðunum fyrir um mánuði og segir hún ástæðuna vera lélega læknisþjónustu. 

Muthana lýsir reynslu sinni af Ríki íslams sem verulega áhrifamikilli. „Þetta var eins og kvikmynd,“ segir hún. „Maður les eina bók og tekur sig vita allt. Ég er í raun illa farin eftir upplifun mína. Við sultum og átum í raun og veru gras.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti Evrópuþjóðir fyrr í dag til að taka við yfir 800 vígamönnum Ríkis íslams sem hafa barist í Sýrlandi en verið handsamaðir. Annars verði að láta þá lausa. Hann virðist hins vegar horfa fram hjá þeirri staðreynd að Bandaríkin hafi sýnt lítinn áhuga á að gera slíkt hið sama.

Muthana segist ekki hafa verið í sambandi við bandarísk yfirvöld frá því hún var handtekin. „Ég myndi biðja þau að fyrirgefa mér að hafa verið svona fávís,“ segir hún. „Ég var ung og fávís. Ég var 19 ára þegar ég fór. Ég trúi því að Bandaríkin gefi mér annað tækifæri. Mig langar að koma aftur og ég mun aldrei fara aftur til Mið-Austurlanda. Bandaríkin geta tekið vegabréfið mitt, mér er alveg sama.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert