Tilbúin að sæta fangelsisvist í Bretlandi

Eftir fjögur ár í herbúðum Ríkis íslams vill Begum nú …
Eftir fjögur ár í herbúðum Ríkis íslams vill Begum nú fá að snúa aftur heim. AFP

Lögmaður fjölskyldu Shamima Begum segir Begum hafa hlotið skaða af dvölinni með Ríki íslams í Sýrlandi og að hún muni þurfa á andlegum stuðningi að halda, fái hún að snúa aftur til Bretlands.

Begum yfirgaf heimili sitt í Bretlandi fyrir fjórum árum, þá aðeins 15 ára gömul, til þess að ganga til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi. Samkvæmt frétt BBC segist Begum tilbúin að sæta fangelsisvist fái hún að snúa aftur heim.

Eftir fjögur ár í herbúðum Ríkis íslams og dauðsföll tveggja barna hennar, og fæðingu þess þriðja, vill Begum nú fá að snúa aftur heim.

Fjölskylda Begum segist tilbúin að taka við barni hennar, sem fæddist í flóttamannabúðum í Sýrlandi á dögunum, og ala það upp fjarri hugmyndum Ríkis íslams. Begum sagðist í viðtali við Times óttast að barnið yrði tekið af henni við komuna til Bretlands, en að hún vonaðist að minnsta kosti að barnið fengi að alast upp hjá fjölskyldu hennar ef það yrði gert.

Enn er óljóst hvort Begum fær að snúa heim til Bretlands, en verði það leyft eru miklar líkur á að hún verði saksótt fyrir þátttöku sína í voðaverkum Ríkis íslams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka