Fyrrverandi þingmaður New York, Anthony Weiner, hefur verið látinn laus úr alríkisfangelsi eftir að hafa afplánað 15 mánuði fyrir að senda barni klúr skilaboð.
Weiner var dæmdur í 21 mánaðar fangelsi og mun afplána afgang refsingarinnar á áfangaheimili í Brooklyn.
Weiner játaði árið 2017 að hafa skipst á klúrum skilaboðum við fimmtán ára gamla stúlku frá Norður-Karólínu og lýkur afplánun 14. maí.
Weiner sat á þingi í tólf ár fyrir demókrata en hætti árið 2011 í kjölfar kynlífshneykslis. Árið 2013 sóttist hann eftir því að verða borgarstjóri í New York en varð að hætta við framboðið eftir að í ljós kom að hann sendi djörf skilaboð til konu.
FBI hóf rannsókn á Weiner í september 2016 eftir að Daily Mail birti frétt um að hann hafi verið að skrifast á við fimmtán ára gamla stúlku. Stúlkan greindi frá því að hann hafi beðið hana um að afklæðast fyrir framan myndavél. Í maí 2017 óskaði eiginkona hans, Huma Abedin, sem áður var aðstoðarkona Hillary Clinton, eftir skilnaði og þann sama dag játaði hann að hafa sent barninu klúr skilaboð.
Rannsóknin á kynlífsskilaboðum Weiner blandaðist inn í kosningabaráttuna árið 2016 þar sem rannsakendur FBI fundu tölvupósta í tölvu hans frá Abedin og þar sást að Clinton notaði einkapóst sinn í starfi sínu sem utanríkisráðherra.