Ætla að svipta Begum ríkisborgararétti

Renu Begum, systir Shamimum Begum, heldur hér á mynd af …
Renu Begum, systir Shamimum Begum, heldur hér á mynd af systur sinni. Fjölskyldan er vonsvikin yfir þeirri ákvörðun breska innanríkisráðuneytisins að ætla að svipta hana ríkisborgararétti. AFP

Breska innanríkisráðuneytið vinnur nú að því að svipta Shamimu Begum, breska konu sem flúði til Sýrlands og gekk til liðs við Ríki íslams er hún var 15 ára, ríkisborgararétti sínum.

Begum flúði nýlega frá vígasamtökunum og dvelur nú ásamt nýfæddu barni sínu í flóttamannabúðum í Sýrlandi. Hún hefur látið í ljós löngun til að snúa aftur til Bretlands og hefur sagst tilbúin að taka afleiðingum gjörða sinna.

Guardian hefur eftir fjölskyldu Begum að innanríkisráðuneytið hafi tilkynnt þeim í dag að svipta ætti hana breskum ríkisborgarrétti. Segist fjölskyldan vonsvikin með þessa ákvörðun ráðuneytisins, en hún hafði biðlað til stjórnvalda að Begum og barn hennar fengju að snúa heim. Innanríkisráðherrann Sajid Javid hafði hins vegar áður greint frá því að hann myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að koma í veg fyrir að Begum fengi að koma aftur til Bretlands.

Tasnime Akunjee, lögfræðingur fjölskyldu Begum, segir þau vera „mjög vonsvikin með áætlun innanríkisráðuneytisins að svipta Shamimu ríkisborgararétti sínum. Við erum nú að skoða alla lagamöguleika til að vefengja þessa ákvörðun,“ sagði Akunjee.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert