Bangladess tekur ekki á móti Begum

Shamima Begum dvelur nú ásamt barni sínu í flóttamannabúðum í …
Shamima Begum dvelur nú ásamt barni sínu í flóttamannabúðum í Sýrlandi. AFP

Stjórnvöld í Bangladess segja af og frá að Shamima Begum, bresk kona sem flúði til Sýrlands er hún var 15 ára og gekk til liðs við vígasamtökin Ríki íslams, fái að setjast að þar.

BBC hefur eftir utanríkisráðuneyti Bangladess að Begum sé ekki ríkisborgari landsins og „ekki komi til greina“ að hleypa henni inn í landið. Greint var frá því í gær að bresk stjórnvöld hefðu svipt Begum breskum ríkisborgararétti sínum.

Begum, sem er 19 ára, dvelur nú í flóttamannabúðum í Sýrlandi þar sem hún ól barn í vikunni. Hún hafði skömmu áður flúið frá vígasamtökunum og hefur í samtali við breska fjölmiðla lýst yfir áhuga á að fá að snúa aftur til Bretlands.

Töldu Begum hafa ríkisborgararétt í gegnum móður sína

Lög kveða á um að ekki megi svipta einstakling ríkisborgararétti, nema hann hafi fyrir ríkisborgararétt í öðru ríki. Segir BBC að talið hafi verið að Begum hefði í gegnum móður sína, einnig ríkisborgararétt í Bangladess.

Þessu hafnar utanríkisráðuneyti Bangladess. Begum hafi aldrei sótt um tvöfaldan ríkisborgarrétt, né heldur hafi hún heimsótt landið. Það valdi stjórnvöldum í landinu miklum áhyggjum að hún hafi ranglega verið talinn Bangladessbúi.

Stefna stjórnvalda í landinu sé að hryðjuverk og ofbeldi öfgamanna líðist ekki.

Talið er að móðir Begum sé Bangladessbúi og hefur BBC eftir lögfræðingum að samkvæmt lögum landsins fái dóttir hennar sjálfkrafa ríkisborgararétt. Móðir hennar hefur hins vegar nú sagt BBC að hún sé ekki með ríkisborgarrétt nema í einu landi og að það hafi verið rangt hjá breskum yfirvöldum að svipta dóttur hennar ríkisborgararétti sínum án þess að ræða við hana.

„Ég fæddist ekki í Bangladess. Ég hef aldrei komið þangað og tala málið ekki einu sinni almennilega. Þannig að ég skil ekki hvernig þeir geta fullyrt að ég hafi ríkisborgararétt þar,“ sagði hún.

Útiloka ekki að barnið teljist breskt

Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, sem áður hefur sagst ætla að gera það sem hann geti til að koma í veg fyrir að Begum fái að snúa aftur til Bretlands, segist þó ekki útiloka að barn hennar teljist breskur ríkisborgari.

„Börn eiga ekki að þjást. Þannig að þó að foreldri missi ríkisborgararétt sinn, þá hefur það ekki áhrif á réttindi barnsins,“ sagði Javid í þinginu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka