Barn án ríkisfangs

AFP

Fjölskylda Shamima Begum, sem gekk til liðs við vígasamtökin Ríki íslams í Sýrlandi þegar hún var 15 ára gömul, ætlar ekki að sætta sig við að hún verði svipt breskum ríkisborgararétti. Allar leiðir verði reyndar til þess að koma í veg fyrir það ætlunarverk breskra stjórnvalda. Lögmaður fjölskyldunnar, Tasnime Akunjee, segir þetta í viðtali við BBC.

Í gær var greint frá því að ríkisstjórnin íhugaði að svipta stúlkuna, sem er 19 ára gömul í dag, ríkisborgararétti. Þetta hefur ekki verið staðfest af ríkisstjórninni sem segist ekki tjá sig um einstök mál annað en að ákvarðanir um að svipta einhvern ríkisborgararétti væri ekki tekin nema að vel ígrunduðu máli. 

Begum fannst í sýrlenskum flóttamannabúðum í síðustu viku eftir að hafa farið frá Baghuz, síðasta vígi Ríkis íslams. Hún fæddi son um helgina og hefur sagt að hún vilji fara aftur heim til Bretlands.

Shamima Begum.
Shamima Begum. AFP

Talsmaður innanríkisráðuneytisins segir að undanfarna daga hafi ráðherrann ekki leynt því að það sé forgangsmál í hans huga að tryggja öryggi Bretlands og fólksins sem þar býr.

Hvað með drenginn?

Talið er að Begum sé ættuð frá Bangladess en þegar hún var spurð að því af fréttamanni BBC sagðist hún hvorki eiga vegabréf landsins né heldur hafi hún nokkurn tíma komið þangað. Carklile lávarður, sem er fyrrverandi ráðgjafi við setningu hryðjuverkalaga í Bretlandi, segir að ef móðir Begum sé með slíkt ríkisfang (Bangladess), líkt og talið er, þá sé Begum það líka, samkvæmt lögum Bangladess. Það er barn fylgi móður þegar kemur að ríkisborgararétti.

Lögmaður fjölskyldunnar, Akunjee, segir aftur á móti við Independent að ríkisstjórn Bangladess kannist ekki við hana sem þegn landsins. Allt bendi því til að hún hafi verið gerð ríkisfangslaus.
Begum sagði fyrr í vikunni að hún vildi snúa aftur heim og ala barn sitt upp í Bretlandi. Ein spurning sem hefur kviknað er hvort sonur hennar, sem væntanlega er sonur bresks foreldris, áður en það er svipt ríkisfangi, sé samt sem áður álitinn breskur. Því þrátt fyrir að mögulega gætu bresk yfirvöld svipt barnið ríkisborgararétti yrði það ekki gert að óathuguðu máli vegna réttinda sem börn eigi.

Yfir hálf milljón barna í Evrópu án ríkisfangs

Málefni ríkisfangslausra barna í Evrópu er mjög í umræðunni í dag en í sameiginlegri yfirlýsingu tveggja stofnana Sameinuðu þjóðanna, Flóttamannaðstoðar SÞ (UNHCR) og Barnahjálpar SÞ (UNICEF), eru ríki og héraðsstjórnir í Evrópu beðin um að grípa strax til aðgerða í málefnum barna og tryggja að þau séu hvorki fædd ríkisfangslaus né að þau séu það áfram, í Evrópu. Engar öruggar tölur eru fyrirliggjandi um fjölda þeirra en talið er að yfir hálf milljón barna í Evrópu sé án ríkisfangs. Þeim hafi fjölgað mjög samfara fjölgun flóttafólks í álfunni. 
Börn án ríkisfangs hafi takmarkaðan aðgang að lágmarksréttindum og þjónustu, svo sem menntun og heilbrigðisþjónustu og geta átt yfir höfði sér mismunun alla ævi. Börn sem eru án opinberra pappíra eiga enn frekar á hættu en önnur börn að búa við ofbeldi, misnotkun og að verða fórnarlömb mansals.

Dómur í máli Ernu Reka

Í dag verður kveðinn upp dómur í máli Ernu Reka en hún fæddist hér á landi fyrir 22 mánuðum. Hún er skráð utangarðs, það er Evrópa ótilgreint, en foreldrar hennar sóttu um hæli á Íslandi 2015 og fengu at­vinnu­leyfi en var svo vísað úr landi. Skömmu síðar komu þau aft­ur til lands­ins og sóttu um dval­ar­leyfi. Um­sókn þeirra var hafnað og niðurstaðan samþykkt af kær­u­nefnd út­lend­inga­mála.
Dóms­málið er höfðað með þeim rök­um að í 102. grein út­lend­ingalaga segi að óheim­ilt sé að vísa Íslend­ingi úr landi hafi hann átt hér fasta bú­setu frá fæðingu sam­kvæmt þjóðskrá, en lög­heim­ili barna hæl­is­leit­enda og þeirra sem sótt hafa um dval­ar­leyfi eru skráð með öðrum hætti. Þá telja for­eldr­ar Ernu að mis­mun­andi skrán­ing lög­heim­ila barna sé brot á Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna, þar sem óheim­ilt sé að mis­muna börn­um á grund­velli stöðu for­eldra þeirra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert