Muthana ekki bandarískur ríkisborgari?

Hoda Muthana, vill fá að snúa aftur til Bandaríkjanna. Bandarísk …
Hoda Muthana, vill fá að snúa aftur til Bandaríkjanna. Bandarísk stjórnvöld segja hana hins vegar ekki vera bandarískan ríkisborgara. AFP

Bandarískri konu, Hoda Muthana, sem gekk til liðs við vígasamtökin Ríki íslams er hún var 19 ára, verður ekki leyft að snúa aftur til Bandaríkjanna. Þetta segir Donald Trump Bandaríkjaforseti og kveðst ætla að banna Muthana að koma til landsins.

Fullyrti Trump að hún væri ekki bandarískur ríkisborgari og segir AFP-fréttaveitan bandarísku stjórnina væntanlega eiga töluverða lagabaráttu fram undan vegna þessa, þar sem verulega erfitt sé að svipta einhvern bandarískum ríkisborgararétti.

Muthana dvelur nú í flóttamannabúðum í Sýrlandi eftir að hafa flúið frá vígasamtökunum og hefur látið í ljós löngun til að snúa aftur heim. Muthana sem hvatti til þess fyrir nokkrum árum á netinu „að blóði Bandaríkjamanna yrði úthellt“, hefur sagst „iðrast þess veru­lega“ að hafa gengið til liðs við víga­sam­tök­in,

Um helgina þrýsti Trump á evrópska ráðamenn að taka aftur við þeim sem gengu til liðs við vígasamtökin.

Nota mögulega sendiherrasmuguna

Trump sagði á Twitter í dag að hann hefði „fyrirskipað“ utanríkisráðherranum Mike Pompeo „að hleypa  Hoda Muthana ekki aftur inn í landið“. Braut forsetinn þar gegn þeirri hefði bandarískra yfirvalda að tjá sig ekki um málefni ákveðinna innflytjenda.

„Fröken Hoda Muthana er ekki bandarískur ríkisborgari og verður ekki hleypt til Bandaríkjanna,“ sagði í yfirlýsingu frá Pompeo. „Hún hefur engan lagalegan grunn, ekkert gilt bandarískt vegabréf og ekki rétt á slíku vegabréfi. Né heldur hefur hún gilda áritun til að ferðast til Bandaríkjanna.“ Hvatti Pompeo því næst bandaríska ríkisborgara til að ferðast ekki til Sýrlands.

AFP segir Pompeo ekki hafa útskýrt frekar lagaleg rök fyrir því að Muthana, sem er frá Alabama í Bandaríkjunum og ferðaðist til Sýrlands á bandarísku vegabréfi sínu, teldist nú ekki bandarískur ríkisborgari. Né heldur sagði ráðherrann hvert hún ætti þá að fara.

Bandarísk stjórnvöld eru þó sögð geta mögulega notað sér þá smugu að faðir Muthana var sendiherra í Jemen og börn sendiherra hljóta ekki sjálfkrafa ríkisborgararétt í Bandaríkjunum.

Hassan Shilby, lögmaður Muthana, hefur hins vegar birt fæðingarvottorð hennar sem sýnir að hún fæddist í New Jersey árið 1994 og segir hann föður hennar hafa látið af störfum í utanríkisþjónustunni „mörgum mánuðum“ áður en hún fæddist.

„Hún er bandarískur ríkisborgari. Hún er með gilt vegabréf. Hún kann að hafa brotið lögin og ef svo er, þá er hún viljug að svara fyrir það,“ sagði Shilby.

„Við getum ekki farið á þann stað að við einfaldlega sviptum fólk ríkisborgararétti fyrir að brjóta lögin. Þannig eru ekki Bandaríkin. Við erum með eitt besta réttarkerfi í heimi og við verðum að fylgja því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka