Óréttlátt að missa ríkisborgararétt

Renu Begum, systir Shamima Begum, heldur á mynd af henni …
Renu Begum, systir Shamima Begum, heldur á mynd af henni árið 2015 eftir að hún fór til Sýrlands. AFP

Breska konan Shamima Begum, sem flúði til Sýrlands og gekk til liðs við Ríki íslams þegar hún var 15 ára, segir það óréttlátt að vera svipt ríkisborgararétti sínum.

Begum, sem er 19 ára, sagði við ITV News að hún væri miður sín yfir ákvörðun breskra stjórnvalda. Hún bætti við að hún gæti sótt um ríkisborgararétt í Hollandi en eiginmaður hennar er þaðan.

Fjölskylda hennar ætlar að berjast gegn ákvörðun stjórnvalda, að því er BBC greindi frá.

„Ég er í áfalli yfir þessu. Þetta kemur mér í uppnám og ég er pirruð yfir þessu. Mér finnst þetta vera óréttlátt bæði í minn garð og sonar míns,“ sagði Begum þegar henni var sýnt bréf frá stjórnvöldum um að það eigi að svipta hana ríkisborgararétti sínum.

Hún bætti við: „Annar kostur sem ég get athugað með fjölskyldu minni er sá að eiginmaður minn er frá Hollandi og hann á fjölskyldu í Hollandi. Kannski get ég sótt um ríkisborgararétt í Hollandi. Ef hann verður sendur aftur í fangelsi í Hollandi get ég beðið þar á meðan.“

Talið er að maðurinn hennar hafi gefið sig fram við hóp sýrlenskra hermanna fyrir um tveimur vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka