Tugir eru látnir og hundruð manna hafa verið lögð inn á spítala eftir að hafa neytt eitraðs áfengis í Assam-héraði norðausturhluta Indlands. Aðeins rúm vika er liðin síðan um hundrað manns létust vegna svipaðrar eitrunar í Uttar Pradesh og Uttarakhand.
Tilkynnt hefur verið um 69 dauðsföll, en á meðal látinna eru bæði karlar og konur sem flest störfuðu við teframleiðslu.
Að sögn lækna á svæðinu hafa hið minnsta 200 leitað á sjúkrahús með alvarleg uppköst, mikla verki fyrir brjósti og erfiðleika með andardrátt.
Einn hefur verið handtekinn vegna sölu á áfenginu og tveimur hefur verið sagt upp störfum fyrir að bregðast eftirlitsskyldu sinni með sölu á áfengi. Um fimm milljarða lítra af áfengi er neytt á ári hverju á Indlandi, en talið er að um 40% þess sé framleitt með ólöglegum hætti.