„Ríkisstjórnin drap hann“

Mótmælendur héldu meðal annars á myndum af hinum látna.
Mótmælendur héldu meðal annars á myndum af hinum látna. Skjáskot/Youtube

Mörg þúsund mótmælendur hafa komið saman í Mexíkóborg í kjölfarið á morði á umhverfissinna í vikunni. Samir Flores Soberanes var skotinn tvívegis í höfuðið á heimili sínu í Amilcingo, sunnan við Mexíkóborg, á miðvikudag.

„Samir dó ekki, ríkisstjórnin drap hann,“ stóð meðal annars á skiltum mótmælenda. Flores starfaði sem blaðamaður en honum er líst sem baráttumanni fyrir mannréttindum og þá var hann harður andstæðingur fyrirhugaðrar jarðhitavirkjunar í grennd við heimabæ sinn.

Saksóknari segist ekki vita hver myrti Flores en rannsakar tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Flores lét lífið nokkrum dögum áður en kjósa átti um virkjunina; sem er gert nú um helgina.

Fólk sem barðist með Flores segir að hann hafi komið á fund vegna virkjunarinnar nokkrum dögum fyrir andlátið. Þar hafi hann ögrað fulltrúum stjórnvalda.

„Ég er hryggur vegna morðsins,“ sagði Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó. Hann hefur verið stuðningsmaður virkjunarinnar og verður kosið um hana í þremur ríkjum Mexíkó um helgina.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert