Talið er kraftaverk að hinn 75 ára gamli Olle Rosdahl lifði af þegar tæplega fimmtugur Norðmaður á villisvínaveiðum á Skáni í Suður-Svíþjóð skaut hann í misgripum þar sem Rosdahl var í miðjum klíðum í daglegu morgunskokki sínu klukkan hálffimm að morgni 29. nóvember í fyrra.
Sá norski situr nú í gæsluvarðhaldi í Helsingborg sem rennur sitt skeið á enda 8. mars en sænskt ákæruvald vinnur að ákærunni. Sönnunargögnin eru með skýrasta móti, tíu sekúndna langt myndskeið sem hitamyndavél i mögnunarsigti veiðiriffilsins tók upp augnablikin fyrir skotið og fram að því er .338 Lapua Magnum-kúlan, sem er nokkru meiri um sig en skotfæri sem hefðbundið er að nota við elgveiðar í Noregi, hæfði mjöðm Rosdahl og kom út um bak hans.
Skokkaranum tókst að skríða á næsta bæ og gera vart við sig en Norðmaðurinn varð skelfingu lostinn og hljóp í felur inn í skóglendið. Reyndist það skammgóður vermir þar sem sænsk sérsveit ásamt þyrlu kom þegar á vettvang og var sá norski handtekinn nokkrum klukkustundum síðar og hefur verið í haldi Svíþjóðarmegin síðan.
Rannsakar ákæruvaldið nú hvernig skyttunni norsku hafi tekist að villast á mennskum skokkara og villisvíni gegnum kíki með hitamyndavél en norska ríkisútvarpið NRK birtir mynd með frétt sinni í dag af villisvíni séðu með slíkum búnaði og geta lesendur dæmt sjálfir.
Ola Lavie, sem fer með ákæruvald fyrir hönd sænsku lögreglunnar, segir NRK að veiðimannsins bíði annaðhvort ákæra fyrir manndrápstilraun eða alvarlega handvömm (n. grov mishandling). Þrátt fyrir að maðurinn hafi verið á höttunum eftir villisvíni, sem norskir skotveiðimenn sækja mjög í á Skáni, hefur hann borið því við að hafa talið sig vera að skjóta á rádýr sem síst verður honum til málsbóta þar sem bannað er með sænskum lögum að veiða þau í náttmyrkri.
Skokkarinn Rosdahl sagði í viðtali við sænska ríkisútvarpið SVT í desember að þegar hann kom til sjálfs sín eftir að hafa orðið fyrir .338 kalíbera riffilkúlu og lifað það af hafi hans fyrstu viðbrögð verið að hrópa út í myrkrið: „Hvers vegna í fjandanum skjótið þið!?“
Reiknað er með að aðalmeðferð í máli veiðimannsins lánlausa frá Buskerud í Noregi hefjist fyrir héraðsdómi í Helsingborg á næstu dögum.
Aðrar fréttir en þegar er vísað til: