Þrýsta á May að fresta Brexit

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fundar í dag með leiðtogum ESB …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fundar í dag með leiðtogum ESB í Egyptalandi. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sætir nú síauknum þrýstingi um að fresta útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í stað þess að láta Breta yfirgefa ESB samningslausa í lok næsta mánaðar.

Eru hófsamari þingmenn Íhaldsflokksins sagðir vera með áætlun um að fresta Brexit til 23. maí á þessu ári svo tími gefist til að ljúka viðræðunum.

BBC segir þessa áætlun vera lagða fram sem annan valkost við hugmyndir um að þingmenn taki alfarið yfir útgönguferlið.

May mun funda með Angelu Merkel Þýskalandskanslara og öðrum leiðtogum ESB-ríkja í Egyptalandi í dag, en þar mun hún þrýsta á á frekari tilhliðranir við núverandi samningsdrög.

May tilkynnti í gær að þingmönnum muni gefast færi 12. mars á að kjósa á ný um samningsdrögin og fullyrti hún að þeir 17 dagar sem þá væru eftir fram að útgöngudegi myndu duga Bretum til að yfirgefa ESB.

Margir þingmenn vilja hins vegar aðra „þýðingarmikla atkvæðagreiðslu“ fyrir þann tíma og hefur Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, gefið í skyn að May sé að láta tímann líða þar til þingmenn eigi einskis annars kosta völ en að velja á milli samnings hennar, sem Corbyn segir slæman, eða þess að Bretland yfirgefi ESB samningslaust.

BBC segir tilkynningu May hafa valdið mönnum í viðskiptalífinu vonbrigðum, en þar þyrsti menn í að hafa fast í hendi hvað sé fram undan.

May er lengi sögð hafa hafnað öllum tillögum um að útgöngunni verði frestað lengur en til 29. mars. BBC hefur hins vegar eftir tveimur ráðherrum stjórnarinnar að þeir telji líklegt að einhverjar breytingar verði á því í þessari viku. Frestun útgöngu er þó sögð munu óumflýjanlega valda reiði hjá þeim sem vilja Breta úr ESB hið fyrsta, óháð öðrum afleiðingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert