Fjármálastjóri Vatíkans dæmdur fyrir barnaníð

George Pell yfirgefur dómshúsið í Victoria í Ástralíu.
George Pell yfirgefur dómshúsið í Victoria í Ástralíu. AFP

George Pell, kardínáli og fjármálastjóri Vatíkansins, hefur verið dæmdur sekur um kynferðisofbeldi gegn börnum. Pell er þar með hæst setti embættismaður kaþólsku kirkjunnar sem dæmdur hefur verið fyrir barnaníð.

Greint var frá því í lok síðasta árs að Frans páfi hefði látið Pell, og annan kardínála sem einnig tengist barnaníðsmálum, fara úr hópi sinna nánustu ráðgjafa.

Það var kviðdómur í Ástralíu sem komst að þeirri niðurstöðu að Pell hefði gerst sekur um kynferðislega misnotkun á tveimur kórdrengjum í dómkirkjunni í Melbourne árið 1996, er hann starfaði þar sem prestur.

Pell hafði áður lýst yfir sakleysi sínu af ákærunum.

Dómurinn féll í desember á síðasta ári, en var ekki gerður opinber fyrr en nú af lagalegum ástæðum. Pell mun koma fyrir dómara á morgun, en þá verður tilkynnt um þyngd refsingarinnar. BBC segir hann þó þegar hafa áfrýjað dóminum.

Réttað var yfir Pell í tvígang á síðasta ári, þar sem fyrri kviðdóminum tókst ekki að koma sér saman um niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert