Lögmenn George Pell, kardínála og fjármálastjóra Páfagarðs, ætla að áfrýja niðurstöðu dóms yfir kardínálanum í Ástralíu í gær. Pell var fundinn sekur um kynferðisbrot gegn tveimur kórdrengjum. Kardínálinn er hæst setti embættismaður kaþólsku kirkjunnar sem hefur verið sakfelldur fyrir barnaníð.
Pell er nú 77 ára og var sakfelldur fyrir kynferðisofbeldi gegn piltunum í skrúðhúsi dómkirkju í Melbourne á síðasta áratug aldarinnar sem leið þegar þeir voru tólf og þrettán ára. Refsidómur verður kveðinn upp síðar og kardínálinn á allt að 25 ára fangelsisdóm yfir höfði sér ef áfrýjun hans verður hafnað. Pell hefur alltaf neitað sök.
Annar kórdrengjanna dó af völdum of stórs skammts af fíkniefnum árið 2014 og fjölskylda hans rekur örlög hans til sálræna áfallsins sem hann varð fyrir vegna árásarinnar. Hitt fórnarlambið sagðist hafa fundið til „skammar, einmanaleika, þunglyndis og innri baráttu“ í mörg ár eftir árásina.
Pell varð kardínáli árið 2003 og Frans páfi skipaði hann fjármálastjóra Páfagarðs 2014. Hann er íhaldssamur í samfélagsmálum, hefur m.a. tekið harða afstöðu gegn hjónaböndum samkynhneigðra og látið í ljós efasemdir um að heiminum stafi hætta af loftslagsbreytingum af mannavöldum. Ástralski blaðamaðurinn David Marr segir að Pell hafi einnig beitt sér mjög gegn getnaðarvörnum, hjónaskilnuðum og fóstureyðingum. Hann hafi lagt mikla áherslu á skírlífi presta sem hann hafi lýst sem heilagri skyldu, fórn í þágu Krists og sönnun fyrir ást þeirra á Guði, að því er segir í frétt Morgunblaðsins í dag.
Saksóknari og verjendur hafa heimild til þess að nota nokkra mánuði í að fara yfir skjöl málsins áður en áfrýjunardómstóll tekur ákvörðun um framhaldið.