Michael Cohen, fyrrverandi lögfræðingur Donald Trumps Bandaríkjaforseta, segist ekki búa yfir neinum beinum sönnunum um að Trump hafi unnið með rússneskum stjórnvöldum í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2016. Hann grunar hins vegar forsetann um ýmislegt leynimakk.
„Frá því hann tók við embætti hefur hann umbreyst í verstu útgáfuna af sjálfum sér,“ sagði Cohen meðal annars þegar hann kom fyrir eftirlitsnefnd fulltrúardeildar Bandaríkjaþings í dag. Cohen mun hefja afplánun á þriggja ára fangelsisdómi í maí en hann var sakfelldur fyrir að hafa logið að þingnefnd árið 2017 og fyrir brot á kosningalögum. Jim Jordan, oddviti repúblikana í nefndinni, kallaði Cohen lygara og svikahrapp og gagnrýndi harðlega að hann væri að koma fyrir nefndina.
„Ég hef gert slæma hluti, en ég er ekki vondur maður,“ sagði Cohen þegar hann fór yfir samstarf sitt með Trump síðustu 13 árin eða svo, frá því hann tók við starfi sem aðallögfræðingur Trumps.
Cohen sagðist gera sér grein fyrir því að margir efist um trúverðugleika hans og því hafi hann lagt fram skriflega yfirlýsingu. Hann sé fyrst og fremst að koma fyrir nefndina til að segja sannleikann, en ekki til að vernda Trump líkt og raunin var árið 2017.
„Ég skammast mín fyrir veikleika mína og fyrir að vera ekki traustsins verður, fyrir allt sem ég gerði fyrir herra Trump til að reyna að vernda og styðja hann. Ég er ekki að vernda Trump lengur,“ sagði Cohen.
Cohen segist hafa orðið vitni að samræðum Trump-feðga um fundinn í Trump-turninum í júní 2016 þar sem Trump yngri, Jared Kushner, tengdasonur forsetans, og Paul Manafort, þáverandi kosningastjóri Trumps, hittu lögfræðinginn Natalia Veselnitskaya í því skyni að grafa upp óhróður um Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump.
Skömmu fyrir fundinn heyrði Cohen feðgana ræða um að „allt væri klárt fyrir fundinn“ og segir hann að Trump hafi sagt við son sinn: „Allt í lagi, gott mál. Þú lætur mig vita.“ Cohen var spurður hvort fjölskylda Trump hafi haft tengsl við erlenda aðila og játti hann því.
Þá sagði Cohen að Trump hafi vitað að til stæði að leka tölvupóstsamskiptum Demókrataflokksins fyrir kosningarnar en að Trump hefði ekki haft vitneskju um hvað stæði nákvæmlega í póstunum.
Hlé var gert á vitnisburði Cohen rétt eftir klukkan 17 en hófst að nýju fyrir skömmu. Hér að neðan má fylgjast með fundinum í beinni útsendingu: