Hætt við hijab

Verslun Decathlon.
Verslun Decathlon. Vefur Decathlon

Franska íþróttavörukeðjan Decathlon hefur hætt við áætlanir sínar um að selja slæður, hijab, fyrir hlaupakonur í Frakklandi vegna mikillar andstöðu meðal Frakka við fyrirætlanir fyrirtækisins. Tilkynnt var um þetta í gær og segir yfirmaður Decathlon, Xavier Rivoire, í samtali við RTL-sjónvarpsstöðina að fyrirtækinu hafi borist hótanir léti það verða af sölunni. Áður hafði hann sagt við AFP-fréttastofuna að slæðurnar yrðu til sölu í frönskum verslunum Decathlon til þess að tryggja jafnan aðgang allra kvenna að íþróttum. 

Mjög oft hafa komið upp deilur af svipuðu tagi í Frakklandi varðandi fatnað sem hylur andlit og líkama kvenna. Sumir segja slíkan fatnað ýta undir undirokun kvenna á meðan aðrir segja að hann veiti konum frelsi til þess að taka virkan þátt í þjóðfélaginu. Um er að ræða fatnað sem konur sem eru íslam-trúar klæðast, svo sem slæður og klúta. Hijab hyl­ur aðeins hár og háls. Ekki er hægt að rekja upp­runa slæðunn­ar beint til íslam þar sem sá siður að kon­ur hyldu sig á ein­hvern hátt var til staðar löngu fyr­ir tíma íslam. Elstu dæmi um slíkt er að finna í Mesópóta­míu fyr­ir um 5.000 árum. Níkab (e. niqab) hylur allan líkamann nema augu. Tjador (e. tjador) hylur allan líkamann nema hendur og andlit. Búrka (e. burka) hylur allan líkamann. Net er fyrir augum.

Frakkar bönnuðu árið 2004 notkun hijab í skólastofum og opinberum skrifstofum en mjög algengt er að sjá konur með slíkar slæður á götum úti. Árið 2016 var mjög tekist á um sundfatnað sem kallast búrkíní á frönskum baðströndum en hvergi í Evrópu eru múslimar jafn fjölmennir og í Frakklandi. 

Hijab framleitt af Nike.
Hijab framleitt af Nike. Vefur Nike

Decathlon selur hijab fyrir hlaupara í Marokkó og ætlaði að hefja sölu á þeim síðar í vikunni í Frakklandi. Ástæðan var miklar vinsældir þeirra í Marokkó. 

Angelique Thibault, sem hannar íþróttavörur Decathlon undir vörumerkinu Kalenji, segir að hugsun hennar á bak við hönnunina hafi verið sú að veita konum möguleika á að hlaupa í hvaða hverfi sem var í öllum heimsins borgum án þess að trúarbrögð hefðu þar áhrif.  

Ein þeirra sem hafa gagnrýnt sölu á slíkum slæðum í Decathlon í Frakklandi er heilbrigðisráðherra landsins, Agnes Buzyn. Hún segir að það sé ekki bannað samkvæmt frönskum lögum að bera hijab en slæðan gefi ekki þá sýn á konur sem henni hugnist.  

Þrátt fyrir að Dechathlon hafi hætt við að selja slæðurnar er hægt að kaupa þær hjá Nike á 30 evrur stykkið. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert