Nota mynd af Begum sem skotskífu

Shamima Begum var 15 ára er hún flúði til Sýrlands …
Shamima Begum var 15 ára er hún flúði til Sýrlands og gekk til liðs við Ríki íslams. AFP

Skotklúbbur nokkur í Wirral í Bretlandi notar mynd af Shamimu Begum, breskri konu sem flúði til Sýrlands er hún var 15 ára og gekk til liðs við Ríki íslams, sem skotskífu á æfingum.

Guardian segir forsvarsmenn skotsvæðisins verja notkunina með því að Begum hafi ekki virst sjá eftir gjörðum sínum. Segja þeir raunar fjölda fyrirspurna hafa borist frá viðskiptavinum um skotskífumyndina.

Börnum niður í sex ára aldur er heimilt að koma á skotsvæðið og er Begum ekki eini þekkti einstaklingurinn sem prýðir skotskífur klúbbsins, því Donald Trump Bandaríkjaforseta og Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, er einnig að finna á skotskífunum.

Begum, sem nú er 19 ára, flúði frá Bretlandi með tveimur skólasystrum sínum árið 2015. Hún rataði hins vegar í fréttirnar á ný á þessu ári eftir að dagblaðið Times hafði uppi á henni í flóttamannabúðum í Sýrlandi. Þar greindi hún blaðamanni frá því að sig langaði að snúa aftur heim til Bretlands og hún óttaðist um heilsu þá ófædds barns síns. Innanríkisráðherra Bretlands hefur hins vegar fyrirskipað að Begum verði svipt ríkisborgararétti.

„Kalla fram barnið í okkur“

Forsvarsmenn Ultimate Airsoft Range-skotsvæðisins segja skotmörkin kalla fram mikil viðbrögð og umræður. Þau geri enn fremur fólki kleift að skemmta sér aðeins þar sem þau „kalli fram barnið í okkur öllum“.

„Skotmörkin endurspegla ekki alltaf persónulegar skoðanir okkar og við viljum ekki láta hryðjuverk viðgangast. Eftir að hafa horft á viðtalið við Begum fannst okkur hún sýna skort á samúð og ákváðum að hlusta á viðskiptavini okkar og nota hana sem skotmark,“ sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins.

Talsmaður sambands múslima í Bretalndi sagði hættulegt að nota slíkar myndir sem skotmörk á tímum þar sem kynþáttahatur færist í vöxt. Þó að margir séu ósáttir við gjörðir Begum þegar hún var 15 ára stelpa sé „ótrúlega hættulegt að nota þær tilfinningar til að ómanngera múslimskar konur eða hvetja til ofbeldis gegn þeim sem líkjast eða klæða sig eins og Begum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka