Vatíkanið með eigin rannsókn á brotum Pell

Kardínálinn George Pell fyrir framan dómshúsið í Melbourne.
Kardínálinn George Pell fyrir framan dómshúsið í Melbourne. AFP

Vatíkanið mun hefja innri rannsókn á ástralska kardínálanum og fyrrverandi fjármálastjóra Vatíkansins, George Pell, eftir að greint var frá því í gær að Pell hefði verið fundinn sekur um kynferðislegt ofbeldi gegn tveimur kórdrengjum.

Pell var áður einn nánasti ráðgjafi Frans páfa og er jafnframt æðsti embættismaður kaþólsku kirkjunnar sem dæmdur hefur verið fyrir barnaníð.

Alessandro Gisotti, talsmaður Páfagarðs, segir málið nú fara í hefðbundið ferli innan Vatíkansins en rannsóknin getur leitt til nýrra réttarhalda yfir Pell innan kirkjunnar og jafnvel kann að fara svo að han verði sviptur hempunni. Slík voru örlög Theodore McCarrick, fyrrverandi erkibiskups og kardínála kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum, sem var fyrr á þessu ári sviptur hempunni vegna ásakana um að hann hefði beitt táningsdreng kynferðislegri misnotkun.

Pell, sem er 77 ára, á nú yfir höfði sér allt að 50 ára fangelsisdóm fyrir brot sín gegn tveimur kórdrengjum í dómkirkjunni í Melbourne á tíunda áratug síðustu aldar. Hann hefur þegar tilkynnt að hann muni áfrýja dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert