Danius hætt hjá Akademíunni

Litríkur klæðnaður Söru Danius vakti mikla athygli á konunglegri samkomu …
Litríkur klæðnaður Söru Danius vakti mikla athygli á konunglegri samkomu 10. desember 2018. Spekingar töldu ljóst að bleiki og appelsínuguli liturinn væri vísun í klæðnað nautabana. AFP

Sara Danius hefur ákveðið að segja alfarið skilið við Sænsku akademíuna (SA). Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef SA fyrr í vikunni. Danius hefur ekki tekið þátt í störfum SA í tæpt ár eða frá því að stuðningsmenn Katarinu Frostenson innan SA settu það sem skilyrði fyrir því að Frostenson drægi sig út úr störfum SA að Danius gerði slíkt hið sama. Danius var ritari SA þegar 18 konur í árslok 2017 sökuðu í Dagens Nyheter Jean-Claude Arnault, eiginmann Frostenson, um að hafa í áratugi beitt konur kynferðisofbeldi.

Í fréttatilkynningu sem Danius sendi sænsku fréttaveitunni TT kemur fram að hún hafi fyrir nokkrum dögum boðist til að taka aftur við starfinu sem ritari SA þegar Anders Olsson, sem verið hefur starfandi ritari síðustu mánuði, lætur af því starfi sökum aldurs en hann verður sjötugur í sumar. Því boði var hins vegar hafnað og í kjölfarið ákvað Danius að yfirgefa endanlega stól nr. 7 sem verið hefur hennar síðan 2013.

„Það hefur verið mér mikill heiður að sitja í þessum stól,“ skrifar Danius í yfirlýsingu sinni og rifjar upp að Selma Lagerlöf hafi setið í sama stól þegar hún fyrst kvenna var valin inn í SA 1914. Danius er fyrsta og eina konan sem verið hefur ritari SA.

Ítarlegar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert