Katrín ein af 20 áhrifamestu konum heims

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, er í hópi 20 áhrifamestu kvenna …
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, er í hópi 20 áhrifamestu kvenna heims, að mati CEO Magazine. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað eiga Katrín Jakobsdóttir, Angelina Jolie, Serena Williams og Malala Yousafzai sameiginlegt? Ástralska viðskiptatímaritið CEO Magazine er með svarið á hreinu, en í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars hefur tímaritið útnefnt 20 áhrifamestu konur heims. Þar er forsætisráðherra Íslands í góðum félagsskap.

Í úttekt tímaritsins segir að við valið hafi verið horft til kvenna sem skara fram úr en halda á sama tíma áfram að berjast fyrir jöfnum hlut kvenna gagnvart körlum um heim allan.

Bandaríska ofurfyrirsætan, frumkvöðullinn og mannvinurinn Karlie Kloss prýðir aðra af tveimur forsíðum tímaritsins en leikkonan Angelina Jolie prýðir hina útgáfuna.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Angelina …
Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Angelina Jolie sé á lista yfir áhrifamestu konur heims. Skjáskot/CEO Magazine

Á listanum má einnig finna leikkonuna Emmu Watson, mannréttindalögfræðinginn Amal Clooney, Mary Barra, forstjóra General Motors, Melindu Gates, meðstofnanda Microsoft og Emmu Gonzáles, sem hefur farið fyrir hópi ungmenna sem krefjast hertrar byssulöggjafar eftir skotárásina í Mar­jory Stonem­an Douglas-fram­halds­skól­an­um í Flórída í fyrra.

Fjallað er um afrek og einkenni hverrar konu fyrir sig og í umfjölluninni um Katrínu, sem er yngsti kvenleiðtogi í Evrópu, segir að hún sé með sterkar skoðanir á réttindum kvenna og umhverfismálum. Tímaritið vitnar í grein sem Katrín skrifaði fyrir ráðstefnu Alþjóðaviðskiptaráðsins þar sem hún fjallar um rétt beggja foreldra til fæðingarorlofs þar sem það taki á kerfisbundinni mismunum sem konur hafa orðið fyrir á vinnumarkaði.

Umfjöllun CEO Magazine um 20 áhrifamestu konur heim má nálgast hér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert