Vísbendingar eru um að Ísraelar hafi framið glæpi gegn mannkyninu í aðgerðum gegn mótmælum á Gaza í fyrra, samkvæmt nýrri rannsókn Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að leyniskyttur hafi beint vopnum sínum vísvitandi að börnum, heilbrigðisstarfsmönnum og blaðamönnum.
„Ísraelskir hermenn brutu gegn alþjóðlegum mannréttinda og mannúðarlögum með ofbeldisverkum sínum. Sum brotanna teljast jafnvel sem stríðsglæpir eða glæpir gegn mannkyninu,“ segir yfirmaður nefndarinnar sem rannsakaði mótmælin í Palestínu, Santiago Canton, í yfirlýsingu.
Stjórnvöld í Ísrael hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau segja ekkert hæft í skýrslunni og hún byggi á fordómum Sameinuðu þjóðanna í þeirra garð.
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna setti rannsóknina af stað fljótlega eftir að mótmælin hófust 30. mars í fyrra og til ársloka. Yfir sex þúsund óvopnaðir mótmælendur voru skotnir af leyniskyttum ísraelska hersins. Drápin voru framin viku eftir viku, segir í skýrslunni.
Rannsóknarnefndin segir að marktækar vísbendingar séu um að ísraelskar leyniskyttur hafi skotið á blaðamenn, heilbrigðisstarfsmenn, börn og fatlaða þrátt fyrir að staða þeirra væri augljós.
Jafnframt séu áreiðanlegar vísbendingar um að ísraelskir hermenn hafi drepið og sært Palestínumenn sem hvorki tóku þátt í átökum né sýndu fjandsamlega framkomu gagnvart Ísrael. Sameinuðu þjóðirnar vísa alfarið á bug fullyrðingum Ísraela að mótmælin hafi verið hryðjuverk. Mótmælendur voru almennir borgarar sem lýstu pólitískum skoðunum sínum, segir einnig í skýrslunni. Mótmælendur hafi ekki beitt hernaði en þar hafi einnig verið óeirðarseggir á meðal.
Alls voru tekin 325 viðtöl við fórnarlömb, vitni og aðra auk þess sem farið var yfir átta þúsund skjöl tengd mótmælunum á Gaza.