Telur Kim ekki eiga sök á dauða Warmbier

Otto Warmbier var handtekinn og dæmd­ur til 15 ára þrælk­un­ar­vinnu …
Otto Warmbier var handtekinn og dæmd­ur til 15 ára þrælk­un­ar­vinnu þegar hann reyndi að stela vegg­spjaldi á hót­eli. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í morgun að hann teldi ekki að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, bæri ábyrgð á dauða bandaríska námsmannsins Otto Warmbier sem lést árið 2017 í Bandaríkjunum eftir að hafa verið í haldi stjórnvalda í Norður-Kóreu.

Kim neitaði því að hafa vitað um þá illu meðferð sem Warmbier hlaut í Norður-Kóreu. 

„Honum leið illa út af þessu, honum leið mjög illa,“ sagði Trump á blaðamannafundi eftir leiðtogafund forsetans og leiðtoga Norður-Kóreu í Víetnam.

Stjórn­völd í Norður-Kór­eu hand­sömuðu Otto Warmbier árið 2016 þegar hann var á leið úr land­inu eft­ir fimm daga ferðalag. Warmbier, sem var á þeim tíma stúd­ent við Virg­in­íu­há­skóla, var sakaður um að hafa stolið vegg­spjaldi af hót­el­inu sem hann dvaldi á.

Warmbier var skilað aft­ur til Banda­ríkj­anna í júní 2017 eft­ir samn­ingaviðræður sem rík­is­stjórn Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta leiddi. Við kom­una til Banda­ríkj­anna var Warmbier bæði blind­ur og heyrn­ar­laus auk þess sem hann hafði orðið fyr­ir veru­leg­um heilaskaða eft­ir dvöl sína í varðhaldi. Hann lést eft­ir að hafa dvalið inn­an við viku í Banda­ríkj­un­um.

Donald Trump og Kim Jong-un.
Donald Trump og Kim Jong-un. AFP

Trump sagði að Kim bæri ekki ábyrgð á örlögum Warmbier þótt hann viðurkenndi að aðstæður í fangelsum í Norður-Kóreu væru nöturlegar. Forsetinn sagðist trúa Kim vegna þess að það hefði ekki komið sér vel fyrir Kim að Warmbier hefði orðið fyrir heilaskaða í fangelsinu.

„Ég held að hann hafi ekkert vitað um þetta. Ég trúi því ekki að Kim hefði leyft þessu að gerast,“ sagði Trump.

Frétt CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert