Sérsveitir lögreglu í Sómalíu hafa í dag staðið í skotbardaga við árásarmenn sem komu fyrir sprengju fyrir utan hótel í Mógadisjú, höfuðborg landsins, í gærkvöld.
Fréttastofan Reuters greinir frá því að á þriðja tug séu látnir eftir sprenginguna og gæti sú tala átt eftir að hækka enn frekar. Þá séu um 80 til viðbótar særðir, en aðallega er um að ræða óbreytta borgara.
Eftir sprenginguna komu árásarmennirnir sér fyrir í nærliggjandi húsi þar sem þeir hófu skothríð að lögreglu og hermönnum, sem ekki hafa náð að yfirbuga þá.
Hótelið sem um ræðir er vinsælt meðal ráðamanna, en það stendur við eina fjölförnustu götu Mógadisjú. Hótelið er nýjasta skotmark vígasamtakanna Al-Shabaab sem hafa staðið fyrir árásum í austurhluta Afríku.
Árásin varð gerð aðeins nokkrum dögum eftir að Bandaríkin bættu í loftárásir sínar gegn vígasamtökunum.
Eftir að sprengjan sprakk við hótelið greip um sig mikil örvænting á meðal fólks. Miklar umferðarteppur gerðu viðbragðsaðilum erfitt fyrir og gekk illa að koma upp ljósbúnaði til þess að lýsa upp rústirnar. Þá gekk erfiðlega að koma að búnaði til þess að leita að fólki í rústunum.
Auk þess hlutu íbúar um í örvæntingu, kallandi nöfn ástvina sem taldir voru hafa verið nærri sprengingunni. Þurftu hermenn að skjóta út í loftið til þess að reyna að koma stjórn á mannfjöldann.