Framsalsferli Meng Wanzhou hafið

Meng Wanzhou (t.h.) tekur á móti gestum þar sem hún …
Meng Wanzhou (t.h.) tekur á móti gestum þar sem hún dvelur í Kanada, skömmu eftir að henni var sleppt úr haldi yfirvalda á tryggingu í desember síðastliðnum. AFP

Kanadísk yfirvöld hófu í dag ferli sem miðar að framsali Meng Wanzhou, fjármálastjóra hjá kínverska fyrirtækinu Huawei, til Bandaríkjanna. Meng var handtekin í Kanada í desember, í máli sem hefur valdið spennu í samskiptum Kanada og Bandaríkjanna annars vegar og Kína hins vegar.

Ákæra á hendur henni og tæknirisanum Huawei í þrettán liðum hefur verið gefin út af bandarískum yfirvöldum, fyr­ir glæpi á borð við pen­ingaþvætti, banka­svik og fyr­ir stuld á viðskipta­leynd­ar­mál­um. For­svars­menn Huawei neita því hins veg­ar að fyr­ir­tækið hafi gerst sekt um eitt­hvað slíkt.

Fram kemur í frétt AFP að framsalsferlið í Kanada gæti tekið mánuði, jafnvel ár, en stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa krafist þess að fá Meng framselda eins fljótt og auðið er.

Meng er ekki í haldi kanadískra yfirvalda, heldur laus gegn tryggingu. Hún er ekki einungis einn hæstsetti starfsmaður kínverska tæknifyrirtækisins, heldur einnig dóttir stofnanda þess, Ren Zhengfei.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert