Segir sambandið við Kim mjög gott

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, hittast fyrir helgi í Víetnam. AFP

„Við áttum innihaldsríkar viðræður við Kim Jon Un, við vitum hvað þeir vilja og þeir vita hvað við þurfum að fá,“ skrifaði Donald Trump Bandaríkjaforseti á Twitter-síðu sína í kjölfar fundar hans með leiðtoga Norður-Kóreu í Víetnam, en fundinum lauk án þess að þeir Trump og Kim kæmu sér saman um samkomulag um kjarnorkuáætlun þess síðarnefnda.

Þrátt fyrir að fundurinn hafi ekki skilað samkomulagi, eins og til stóð, hefur Trump fullyrt að samband þeirra Kims væri mjög gott. Það yrði hins vegar að koma í ljós hvað gerðist í framhaldinu. Viðræðum var skyndilega hætt án samkomulags, án þess að leiðtogarnir snæddu saman og án þess að gefin væri út sameiginleg yfirlýsing.

Þetta var í annað sinn sem Trump og Kim funduðu en fyrra skiptið var í Singapúr fyrir um átta mánuðum síðan. Fyrir fundinn var Trump bjartsýnn á að árangurinn yrði jefnvel betri en af þeim fundi. Ráðamenn í Bandaríkjunum og Norður-Kóreu hafa vísað hvorir á aðra spurðir að því hvers vegna fundurinn fyrir helgi hafi ekki skilað árangri.

Trump hefur sagt að ráðamenn í Norður-Kóreu vildu að allar viðskiptaþvinganir gegn landinu yrðu afnumdar sem væri ekki hægt að fallast á, en norðurkóresk stjórnvöld segja að aðeins hafi verið óskað eftir því að slaka yrði á sumum þvingununum. Á móti yrði öllum kjarnorkutilraunum í Yongbyon hætt. Það væri besta og síðasta boð þeirra.

Þrátt fyrir þetta segja ríkisfjölmiðlar Norður-Kóreu að fundurinn hafi verið árangursríkur og að Kim hafi heitið Trump því að hitta hann aftur við annað tækifæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert