Fundu 1.500 skjaldbökur á flugvellinum

Skjaldbökurnar voru límdar saman og þeim komið fyrir í kössum.
Skjaldbökurnar voru límdar saman og þeim komið fyrir í kössum. Ljósmynd/Facebook-síða tollgæslunnar á Filippseyjum

Lögreglan á Filippseyjum lagði á dögunum hald á 1.500 lifandi skjaldbökur sem hún fann festar saman með límbandi á flugvellinum í Manila.

Skjaldbökurnar fundust í fjórum pökkum sem ekki hafði verið vitjað, en söluandvirði þeirra er talið vera rúmar 4,5 milljónir pesóa, eða tæpar 10 milljónir króna.

BBC segir lögreglu telja burðardýrið hafa skilið pakkana eftir á flugvellinum þegar það uppgötvaði hversu hörð viðurlög eru við smygli á villtum dýrum. Sá sem fundinn er sekur um slíkt á yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsisvist og sekt sem getur numið allt að 200.000 pesóum.

Skjaldbökurnar, sem voru alls 1.529 talsins, voru af nokkrum ólíkum tegundum, m.a. Geochelone sulcata-skjaldbakan sem er á válista yfir tegundir í útrýmingarhættu.

Að sögn tollayfirvalda komu skjaldbökurnar með filippseyskum farþega til landsins frá Hong Kong.

Stofnun sem hefur umsjón með smygli á villtum dýrum hefur tekið yfir umsjón með skjaldbökunum.

BBC segir marga halda skjaldbökur sem framandi gæludýr, en þær eru þó einnig notaðar við gerð óhefðbundinna lyfja, auk þess að þykja sérstakt hnossgæti víða í Asíu. Kjöt skjaldbakanna er af sumum talið vera frygðarlyf, en bein þeirra eru mulin niður og notuð til lyfjagerðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert