Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur lýst yfir miklum áhyggjum eftir að kínverskir ríkisfjölmiðlar greindu frá því að fyrrverandi erindreki frá Kanada hafi verið handtekinn í landinu, grunaður um njósnir og að hafa stolið ríkisleyndarmálum.
„Við höfum miklar áhyggjur af þeirri afstöðu sem Kínverjar hafa tekið,“ sagði Trudeau og átti þar við mál Michael Kovrig sem var handtekinn í desember eftir að Meng Wanzhou, framkvæmdastjóri kínverska raftækjaframleiðandans Huawei, var handtekinn í Kanada.
Trudeau bætti við að Kínverjar hafi tekið geðþóttaákvörðun án þess að fara eftir lögum þegar Kovrig og félagi hans, kaupsýslumaðurinn Michael Spavor, voru handteknir.