Grunaður um brot gegn 263 börnum

AFP

Aðeins fáeinum vikum eftir að mál 26 ára gamals knattspyrnudómara, sem ákærður er fyrir að brjóta kynferðislega gegn tæplega 300 drengjum, var þingfest í héraði í Lillestrøm í Akershus-fylki í Noregi, kemur nú nýtt mál af sama toga fyrir réttinn og litlu minna að umfangi.

Í síðara málinu er manni á fimmtugsaldri gefið að sök að hafa brotið kynferðislega gegn 263 börnum á aldrinum níu til 16 ára, aðallega piltum, með samskiptum gegnum forritin Skype og Omegle. Af fórnarlömbum mannsins eru 220 búsett um allan Noreg en þau sem út af standa í öðrum norrænum löndum.

Upp komst um manninn í nóvember árið 2017 þegar móðir tíu ára gamals drengs í Þrændalögum komst á snoðir um að sonur hennar stundaði þá iðju að senda nektarmyndir af sjálfum sér til einhvers, sem hann taldi vera stúlku á 16. ári. Móðurinni þótti sem maðkur væri í mysunni og hafði samband við lögreglu sem hóf rannsókn.

Leiddi sú rannsókn til handtöku mannsins í janúar í fyrra og hefur hann setið í gæsluvarðhaldi síðan á meðan lögregla hefur flett ofan af máli sem nú er orðið eitt af umfangsmeiri kynferðisbrotamálum landsins.

„Börn eru auðblekkt“

„Ég varð reið,“ segir móðirin við norska ríkisútvarpið NRK, „ég vissi ekki hvert þessar myndir færu né hver mótaðilinn var. Börn eru auðblekkt og mig fór að gruna að það væri engin unglingsstúlka sem hann væri í samskiptum við.“

Anette Holt Tønsberg lögmaður kemur að málinu og hefur þar meðal annars það hlutverk að skipuleggja aðkomu fórnarlambanna, vitnisburði og skýrslutökur sem ætla má að sé ærið verkefni.

„Drengirnir hafa greint frá því að þeir hafi talið sig vera í samskiptum við stúlku, einu eða tveimur árum eldri en þeir. Hann [ákærði] hafði tileinkað sér málfar ungu kynslóðarinnar,“ segir Tønsberg við NRK og greinir enn fremur frá því að maðurinn hafi ginnt fórnarlömb sín til að afklæðast fyrir framan vefmyndavél auk þess að senda honum myndir.

„Viðbrögð þeirra eru mjög mismunandi, sumir eru á góðri leið með að gleyma þessu, öðrum þykir óþægilegt að þurfa að koma við sögu í lögreglumáli en þeir sem þjakaðastir eru hafa upplifað sjálfsvígshugsanir og eiga erfitt með að fóta sig í daglega lífinu,“ segir Tønsberg enn fremur.

Refsirammi í málum vegna kynferðislegra árása á börn gegnum rafræna miðla er 10 ár, sé barn yngra en 14 ára, en sex ár sé barn á aldursskeiðinu 14 til 16 ára. Takist að sanna sérstaklega grófa háttsemi á ákærða getur fangelsisdómur þó numið allt að 15 árum.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert