Fangi í Alencon-fangelsinu í Condé-sur-Sarthe í norðvesturhluta Frakklands særði tvo fangaverði alvarlega í hnífaárás sem franskir ráðherrar segja vera hryðjuverkaárás.
Fanginn, Michaël Chiolo, og eiginkona hans sem var í heimsókn hjá honum, höfðu reist vígi á fjölskyldusvæði í fangelsinu í Normandí snemma í gærmorgun. Lögregla skaut bæði og lést hún af sárum sínum en hann er í haldi.
Einn fangavörður er með alvarlega áverka á kviði en annar er með djúpa skurði í andliti og baki. Chiolo kallaði Allahu Akhbar sem þýðir Guð er almáttugur þegar hann réðst gegn fangavörðunum.
Fulltrúi starfsmanna í fangelsinu segir í samtali við AFP-fréttastofuna að þetta hafi án efa verið morðtilraun. „Það var blóð alls staðar. Fjölskyldu-heimsóknarsvæðið var vígvöllur,“ segir hann.
Talið er að hnífnum (keramik) sem Chiolo beitti hafi verið smyglað inn í fangelsið af konu hans, segir dómsmálaráðherra Frakklands, Nicole Belloubet.
Chiolo, sem er að afplána 30 ára refsidóm, á að hafa öfgavæðst í fangelsinu. Hann er sagður vilja hefna dauða Cherif Chekatt sem lögregla drap eftir að hann gerði árás á jólamarkað í Strassborg þar sem fimm létust. Þetta kom fram í máli saksóknara í París, Rémy Heitz, í gærkvöldi. Mennirnir höfðu eytt 175 dögum saman í fangelsi og héldu síðan sambandi í gegnum póst, segir í frétt Franceinfo.
Chiolo var dæmdur í fangelsi fyrir að hafa kæft 89 ára gamlan mann sem Chiolo hafði ásamt félaga sínum brotist inn hjá. Tvímenningarnir bundu gamla manninn og kefluðu með þeim afleiðingum að hann kafnaði. Í fangelsi fékk hann eins árs dóm til viðbótar fyrir að hvetja til hryðjuverka. Hafði hann beðið annan fanga um að endurgera hryðjuverkaárásina á Bataclan tónleikastaðnum. Í árásinni létust 90 manns.