Flugfreyjur hjá Virgin Atlantic-flugfélaginu hafa hingað til þurft að klæðast rauðu pilsi, rauðum skóm og bera rauðan varalit. En nú er að verða breyting á því. Stjórnendur flugfélagsins greindu frá því í vikunni að flugfreyjum væri í sjálfsvald sett hvort þær væru í pilsi eða buxum, málaðar eða ómálaðar.
Allt frá stofnun flugfélagsins 1984 hefur verið lögð mikil áhersla á útlit búninga og andlitsfarða flugfreyja. En tilkynning flugfélagsins á mánudag þykir sýna breytt viðhorf í garð kvenna sem starfa í flugiðnaðinum. Að það sé þeirra val hvernig þær klæða sig í flugi.
„Við viljum að búningar okkar endurspegli með réttum hætti hvað við erum og stöndum fyrir á sama tíma og við höldum fast í frægan stíl Virgin Atlantic,” segir í tilkynningu flugfélagsins sem höfð er eftir aðstoðarforstjóra þess, Mark Anderson.
„Við höfum heyrt og hlýtt á sjónarmið fólksins okkar og niðurstaðan er breytingar á stefnu hvað varðar stíl og snyrtingu.“
Flugfélög eins og Ryanair og EasyJet eru mun afslappaðri þegar kemur að klæðaburði flugliða heldur en flugfélög eins og British Airways, segir í frétt New York Times. En BA hætti nýlega að krefjast þess að flugfreyjur klæddust pilsum eða kjólum, alls ekki buxum. En þar er enn gerð krafa um að þær séu með andlitsfarða.
Flugfreyjum hjá American Airlines er gert að bera varalit eða varagloss. Ísraelska flugfélagið El Al krefst þess að allar konur sem starfi sem flugliðar séu á háum hælum til þess að „heilla“ farþega og mega þær alls ekki fara úr þeim fyrr en allir farþegar eru sestir í sæti sín. Í janúar sendi Pakistan International Airlines minnismiða á starfsfólk sitt þar sem því voru gefnir sex mánuðir til þess að ná kröfum flugfélagsins um þyngd.
Virgin Atlantic segir ákvörðunina byggja á skoðunum starfsfólk en áður var flugfreyjum gert að nota kinnalit, augnháralit og rauðan varalit. Voru þetta lágmarkskröfur þegar kom að farða í andliti. En í dag þurfa þær ekki að nota neinn farða en er velkomið að gera það vilji þær það sjálfar. Eins eru síðbuxur valmöguleiki fyrir allar konur sem starfa hjá félaginu og eru hluti af hefðbundnum búningi sem starfsfólk fær þegar það hefur störf hjá félaginu. Áður var aðeins hægt að fá buxur ef sérstaklega var óskað eftir því.