Herpes-veiran banamein fiskanna

Íraskir karlar sitja hér í bátum við torfur af dauðum …
Íraskir karlar sitja hér í bátum við torfur af dauðum vatnakarfa í lok síðasta árs. Herpes-veiran reyndist banamein fiskanna. AFP

Skyndidauða milljóna íraskra vatnakarfa í lok síðasta árs má rekja til herpes-veirunnar. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem umhverfisnefnd Sameinuðu þjóðanna (UNEP) kynnti í dag, en vatnakarfinn er notaður í þjóðarrétt Íraka.

Það vakti mikla athygli þegar stórar torfur af dauðum vatnakarfa rak upp á bakka Efrat-árinnar í lok síðasta árs. Í kjölfarið vöknuðu vangaveltur um það hvort að fiskurinn hefði verið veikur eða hvort eitrað hefði verið fyrir honum og rataði málið m.a. á dagskrá íraska þingsins.

Mánaðarlöng rannsókn UNEP hefur hins vegar nú leitt í ljós að orsökin sé Koi-stofn herpes-veirunnar (KHV).

„KHV er alvarlegur og bannvænn sjúkdómur sem veldur dauða hjá vatnakarfa í nær 100% tilfella,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir dr. Thomas Wahli, yfirmanni svissneskrar rannsóknarstofu fyrir tilkynningaskylda sjúkdóma.

Dauði fiskanna í fiskeldisstöðvum í Babýlon-héraði olli eldisstöðvunum miklu tjóni. Sýni af dauðum fiskum, setlögum og fæði þeirra var sent til rannsóknar í Jórdaníu og á Ítalíu. Rannsóknastofurnar staðfestu að vatnakarfinn hefði drepist vegna veiru sem mönnum stafaði ekki hætta af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert