Franski vígamaðurinn Mehdi Nemmouche var í dag sakfelldur fyrir að hafa skotið fjóra til bana á gyðingasafninu í Brussel 24. maí 2014. Árásin markaði upphaf hryðjuverkaárása öfgamanna tengdum vígasamtökunum Ríki íslams í Evrópu.
Nemmouche, sem er 33 ára, skaut fyrst úr skammbyssu og síðan sjálfvirkum riffli og létust tveir ísraelskir ferðamenn, Frakki og belgískur afgreiðslumaður í gyðingasafninu.
BBC segir mann, sem aðstoðaði Nemmouche við skipulagningu árásarinnar, Nacer Bendrer, einnig hafa verið fundinn sekan um morð.
Greint verður frá því við dómsuppkvaðningu síðar hversu langir dómarnir yfir þeim verða.
Réttarhöldin tóku tæpa tvo mánuði og reyndu lögfræðingar Nemmouche að sannfæra dóminn um að sök hefði verið komið á hann með flóknum samsæriskenningum þar sem erlendum leyniþjónustustofnunum var kennt um morðin. Þeir lögðu þó engar sannanir fram máli sínu til stuðnings.
Nemmouche, sem er fæddur í franska bænum Roubaix, á alsírska foreldra. Hann var handtekinn í frönsku hafnarborginni Marseille sex dögum eftir árásina en þangað kom hann með rútu frá Brussel. Að sögn lögreglu var hann með vopnin sem hann beitti í árásinni á sér þegar hann var handtekinn við komuna til Marseille.
Að sögn saksóknara barðist hann með sveit vígasamtakanna í Sýrlandi frá 2013 til 2014 en þar kynntist hann Najim Laachraoui, félaga í glæpagenginu sem stóð á bak við sjálfsvígsárásirnar í Brussel 22. mars 2016. 32 létust í þeim árásum.