Strand olíuflutningaskips við Salómonseyjar í Suður-Kyrrahafi hefur stefnt einstöku lífríki í mikla hættu. Óttast er að olía sem lekur frá skipinu skaði hringlaga kóralrif sem er á heimsminjaskrá UNESCO.
Skipið strandaði í byrjun febrúar, að því er fram kemur í frétt CNN um málið, með um 700 tonn af olíu innanborðs. Talið er að um 100 tonn af olíu hafi þegar lekið úr því út í hið viðkvæma lífríki.
Í frétt CNN segir að óttast sé að enn meiri olía muni leka úr því. Skipið, Solomon Trader, strandaði í Kangava-flóa við Rennel-eyju. Í flóanum er að finna hið einstaka rif, hringlaga kóralrif sem umlykur sjólón. Rifið og umhverfi þess hefur verið á heimsminjaskránni frá árinu 1998. Hringrifið er það stærsta sinnar tegundar í heiminum og hefur UNESCO áhyggjur af umhverfisspjöllum vegna olíumengunarinnar.
Olíuna má nú finna í allt að 5-6 kílómetra fjarlægð frá skipinu og hennar hefur orðið vart við strendur eyja á svæðinu. Þar hefur dauðan fisk tekið að reka á fjörur. „Það er dauður fiskur og krabbi og allt,“ segir Loti Yates, yfirmaður hamfaraskrifstofu Salómonseyja. „Gufurnar frá olíunni hafa einnig haft áhrif á samfélögin og ég var að fá fréttir um að hún hefði einnig haft áhrif á kjúklinga og aðra fugla.“
Áströlsk yfirvöld aðstoða nú eyjaskeggja við að hemja olíulekann. Hafa þau m.a. lánað búnað og sent átta manna sérfræðingateymi á vettvang. Yfirvöld á Salómonseyjum segja ábyrgðina á viðbrögðum við umhverfisslysinu liggja hjá eigendum skipsins og tryggingafélagi þess. Skipið er í eigu King Trader Ltd. en hafði verið tekið á leigu af námufyrirtæki sem grefur eftir súráli (báxíti) er það strandaði í upphafi síðasta mánaðar.
King Trader Ltd. reyndi að draga skipið af strandstað en þeim aðgerðum var hætt vegna veðurs sem olli því að skipið grófst enn frekar í sandbotninn. Hafði tryggingafélagið áhyggjur af því að vélarrými þess myndi skemmast við frekari tilraunir í þessa veru.
Síðan þá hefur ýmislegt komið til sem hamlað hefur björgun, s.s. að skipið varð vélarvana. Nú er verður reynt að dæla olíunni sem eftir er í skipinu, um 600 tonnum, í annað olíuflutningaskip. Hreinsunarstarf er einnig hafið á ströndum eyjanna.