Sonur Begum talinn látinn

Barnið sem um ræðir er þriðja barn Begum síðan hún …
Barnið sem um ræðir er þriðja barn Begum síðan hún flúði til Sýrlands. AFP

Óstaðfestar fregnir herma að sonur Shamima Begum, sem flúði frá Bretlandi til Sýrlands árið 2015, sé látinn. Þetta kemur fram í máli lögfræðings fjölskyldu Begum og greint er frá á vef BBC.

Samkvæmt Tasnime Akunjee, lögfræðingi fjölskyldunnar, segir að margt bendi til þess að fregnirnar séu sannar en honum hefur ekki tekist að fá þær endanlega staðfestar. Begum er staðsett í flóttamannabúðum í Sýrlandi og hefur verið þar síðan í febrúar.

Barnið sem um ræðir er hennar þriðja síðan hún flúði til Sýrlands, en hin tvö börnin voru látin áður en Begum flúði herbúðir samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Hún hefur biðlað til breskra stjórnvalda um að fá að snúa aftur heim, en þess í stað hefur ríkisborgararéttur hennar verið afturkallaður.

Ef marka má fréttaflutning BBC hefur barn Begum að öllum líkindum enn breskan ríkisborgararétt, en samkvæmt lögum eru börn sem fæðast breskum ríkisborgurum áður en ríkisborgararéttur þeirra er afturkallaður enn talin bresk.

Áður hefur komið fram í máli innanríkisráðherra bresku ríkisstjórnarinnar að afturköllun ríkisborgararéttar Begum nái ekki til barnsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert