Gervihnattarmyndir frá svæði í nágrenni Pyongyang, höfuðborgar Norður-Kóreu, gefa til kynna að yfirvöld þar í landi séu að undirbúa sig undir eldflaugaskot eða að setja gervihnött á loft.
BBC segir aukna virkni nú vera greinanlega á svæðinu, sem nefnist Sanumdong og er sá staður þar sem flestum flugskeytum og eldflaugum Norður-Kóreumanna hefur verið skotið frá. Greint var frá því fyrr í vikunni að búið væri að endurbyggja eitt helsta eldflaugasvæði Norður-Kóreu í Sohae.
Hafist var handa við að taka niður eldflaugaaðstöðuna í Sohae í fyrra, en vinnu við það var hætt eftir að lítill framgangur varð í samningaviðræðum Norður-Kóreu og Bandaríkjanna.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist í gær það valda sér vonbrigðum ætluðu Norður-Kóreumenn að hefja eldflaugatilraunir á ný. „Það kæmi mér á óvart á neikvæðan hátt ef hann [Kim Jong-un] gerði eitthvað sem væri ekki í samræmi við okkar skilning. En við skulum sjá hvað gerist. Ég yrði virkilega vonsvikinn ef ég sæi [eldflauga]tilraunir,“ sagði Trump.
BBC segir sérfræðinga þó telja líklegra að Norður-Kórea sé á þessum tímapunkti að undirbúa að senda gervihnött á loft. Bandarísk stjórnvöld sögðu þó fyrr í vikunni að það væri líka í ósamræmi við loforðið sem Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóru, hafi gefið Trump.
Gervihnattamyndir hafa sýnt stór ökutæki á ferð um Sanumdong og í gegnum tíðina hefur það yfirleitt gefið til kynna að Norður-Kórea væri að undirbúa að senda flaug á loft.
BBC segir þó ekki útilokað að ráðamenn Norður-Kóreu séu nú að reyna á þolrif bandarískra stjórnvalda í kjölfar árangurslítilla viðræðna þeirra Trump og Kim í Hanoi í Víetnam í síðustu viku. Verið geti að þeir séu að vonast eftir bandarísk stjórnvöld bjóði þeim betri samning í von um að forðast flugskeytatilraun.